„Þú ert ekki að stýra hér“

Guðni og Ástþór tókust á í Speglinum fyrr í kvöld.
Guðni og Ástþór tókust á í Speglinum fyrr í kvöld. Samsett mynd

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi fór mikinn í kappræðum frambjóðendanna níu í Speglinum á Rás 1 fyrr í kvöld. Spurði hann mótframbjóðanda sinn, Guðna Th. Jóhannesson, ítrekað hverjir stæðu á bak við framboðið hans og sakaði stjórnendur þáttarins, þá Arnar Pál Hauksson og Jón Guðna Kristjánsson, um að reyna að þagga niður í sér. Gaf Ástþór í skyn að það væru áberandi liðsmenn Sjálfstæðisflokksins sem stæðu á bak við framboð Guðna. Guðni greindi frá því að þeir sem væru í stjórn framboðsins væru vinir hans frá fornu fari „og ég spyr þá ekki um flokksskírteini,“ sagði Guðni og bætti við að honum þætti ekki sanngjarnt að Ástþór væri að „stilla þessu upp með þessum hætti.“

Benti Guðni á að fyrst hafi hann verið sakaður af Ástþóri um að vera fulltrúi RÚV og skaut Ástþór þá því inn að hann hefði aðeins sagt að framboðinu hafi verið „skotið á loft“ af RÚV. Þá sagði Guðni að Ástþór hefði einnig sakað Guðna um að vera handberi Samfylkingarinnar.

Aldrei látið flokkspólitík ráða ferðum sínum

„Þau þrjú sem standa á bak við framboðið eru Þorgerður Anna Arnarsdóttir, en við ólumst upp í sömu götu, Friðjón Friðjónsson, en konur okkar eiga það sameiginlegt að vera að utan og eru góðir vinir, og Magnús Lyngdal Magnússon sem ég þekki frá fornu fari úr Háskóla Íslands og sagnfræðinni,“ sagði  Guðni. „Þetta er fólk sem tengist allt Sjálfstæðisflokknum en það kemur mér ekkert við. Ég hef aldrei verið í flokki og öll mín verk bera þess vitni,“ sagði hann og bætti við að hann hefði aldrei látið flokkspólitík ráða ferðum sínum. Sagði hann jafnframt að tveir lögfræðingar störfuðu fyrir framboðið sem tengdust flokknum og er annar þeirra og Guðni systkinabörn að sögn frambjóðandans.

Stjórnendur þáttarins komust að þeirri niðurstöðu um að eyða ekki meiri tíma í þetta málefni og sakaði Ástþór þá um að reyna að þagga niður í sér og sagði Guðna ekki fulltrúa fólksins. Þá var Ástþór beðinn um að sýna virðingu en hann svaraði með því að skora á Guðna að mæta honum í Harmageddon á X-inu í fyrramálið. „Þú ert ekki að stýra hér,“ sagði Guðni þá. Stjórnendur þáttarins voru þarna augljóslega orðnir ósáttir við frammíköll Ástþórs og báðu hann um að vinsamlegast yfirgefa þáttinn myndi hann reyna að taka „þáttinn af öðrum og eyðileggja hann.“

„Ég er ekki að reyna það,“ svaraði Ástþór.

Gagnrýndu fyrirkomulagið hjá RÚV

Ástþór gagnrýndi ekki aðeins Guðna heldur einnig RÚV og tóku aðrir frambjóðendur í sama streng. Var rætt um þátt sem á að vera á dagskrá stöðvarinnar á föstudaginn þar sem frambjóðendum verður skipt upp eftir fylgi. Sagði Ástþór það einfaldlega brot á lögum og var Sturla Jónsson sammála. Voru þeir einnig sammála um að fyrirkomulag sem var í Speglinum, þar sem allir frambjóðendur ræddu saman, hafi gengið vel. Sagði Ástþór jafnframt að með svona fyrirkomulagi eins og fyrirhugað er á föstudaginn „gætum við aldrei átt gott lýðræði.“ 

Hildur Þórðardóttir nýtti einnig tækifærði til þess að gagnrýna fjölmiðla og sagði þá ekki hafa neinn áhuga á að heyra hvað hún hefði að segja og sakaði þá um að stjórna með ótta. „Hér verður engin þróun á meðan þeir [fjölmiðlar] eru svona. Þeir hafa gríðarlegt vald og ábyrgð gagnvart almenningi,“ sagði Hildur og sakaði fjölmiðla m.a. um að snúa upp á orð og vera fasta í tvíhliða hugsunarhætti.

„Ég vona að þeir lítið í eigin barm, ekki bara RÚV, heldur allir og skoði hlutverk fjölmiðla. Eru þeir hér til að viðhalda óttanum eða upplýsa almenning?“

Bentu stjórnendur þáttarins þá á að hún hefði komið fram tvisvar í Speglinum og þá einnig í skrifuðu viðtali í dagblaði. „Þegar ég mætti hingað í Spegilinn mætti ég þvílíkum hroka og yfirlæti og fréttamaðurinn hérna gerði í því að niðurlæga mig á minn kostnað,“ svaraði Hildur og sagðist jafnframt hissa á að hafa fengið þannig móttökur á miðli sem á að vera hlutlaus.

Eins og fyrr segir var það álit margra frambjóðenda að fyrirkomulag þáttarins á föstudaginn sé undarlegt. Benti Andri Snær Magnason á að ef til vill væri Ríkissjónvarpið ekki nógu duglegt að bjóða frambjóðendum í sjónvarpssal. Bætti hann við að hann hefði tilkynnt framboð sitt 11. apríl en hefði ekki komið fram í sjónvarpssal RÚV fyrr en 3. júní. „Ef að fólk á að fá að kynna sig án þess að hafa margar milljónir á bakinu skiptir mjög miklu máli að sjónvarpið taki ríkari þátt,“ sagði Andri.

Hildur Þórðardóttir sakaði fjölmiðla um að ala á ótta.
Hildur Þórðardóttir sakaði fjölmiðla um að ala á ótta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert