Um hundrað í framboði hjá Pírötum

Frá aðalfundi Pírata.
Frá aðalfundi Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Prófkjör Pírata fyrir komandi þingkosningar hefjast í dag fyrir höfuðborgarsvæðið og Suðurland. Þórgnýr Thoroddsen, tengiliður Pírata í prófkjörinu á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki vera sjálfur búinn að taka saman fjölda frambjóðenda en hann hafi heyrt á það minnst að 103 séu í framboði.

Kosningin hefst klukkan 18 síðdegis í dag á rafrænu kosningakerfi Pírata og geta allir þeir sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur tekið þátt í kosningunni. Kosningin stendur yfir í tíu daga og segir Þórgnýr því að þeir sem hafa í dag verið skráðir Píratar í 20 daga geti kosið í prófkjörinu á síðasta degi, þegar þeir hafa uppfyllt skilyrðið að vera skráðir Píratar í 30 daga.

Berghildur Bernharðsdóttir og Þórgnýr Thoroddssen.
Berghildur Bernharðsdóttir og Þórgnýr Thoroddssen. mbl.is/Styrmir Kári

Notast er við svokallaða Shulze aðferð við uppröðunina sem virkar með þeim hætti að kjósendur forgangsraða frambjóðendum eins langt niður og þeir kjósa. Þannig getur einn kjósandi raðað fimm frambjóðendum á lista á meðan annar raðar öllum hundrað frambjóðendunum.

Velja sér kjördæmi eftir að prófkjöri lýkur

Að sögn Þórgnýs skilar þessi aðferð Pírötum á höfuðborgarsvæðinu lista þar sem frambjóðendurnir sem á honum verða ákveða hvort þeir vilja bjóða sig fram fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi, Suður-, eða Norður-kjördæma Reyjavíkur. Sá sem verður í efsta sæti á listanum eftir prófkjörið velur fyrstur, annað sætið velur næst og svo koll af kolli. 

„Höfuðborgarsvæðið er allt það lítið svæði að svona sameiginlegt prófkjör kallar ekki á forgangsröðunarsæti milli umdæma. Við teljum að aðili af höfuðborgarsvæðinu geti talað fyrir allt höfuðborgarsvæðið,“ segir Þórgnýr.

Birgitta, Jón Þór og Þór Saari meðal frambjóðenda

Spurður hvort einhver barátta sé á milli frambjóðenda kveður Þórgnýr já við. „Fólk er að leita leiða til að kynna sig umfram aðra og vekja athygli á því sem það telur mikilvægt við val á fulltrúum. Einhverjir leggja áherslu á að kjósa fólk sem hefur verið virkt í grasrótinni, aðrir vekja máls á tilteknum stefnumálum. Stjórnarskrá, borgararéttindum eða einhverju öðru,“ segir Þórgnýr.

Hann segir gaman að sjá hversu góð aldursdreifingin er í hópi frambjóðenda en hins vegar séu kynjahlutföllin ekki eins góð. „Það er eins og svo oft að það eru færri konur en karlar í prófkjöri. Hlutfallið er sirka þriðjungur á móti tveimur þriðju,“ segir Þórgnýr. Engir kynjakvótar eru á listum Pírata en Þórgnýr segir að margir sterkir kvenkyns frambjóðendur séu í prófkjörinu og hingað til hafa konur komið sterkar út úr kosningum hjá Pírötum. 

Birgitta Jónsdóttir gefur kost á sér í prófkjörinu en Helgi ...
Birgitta Jónsdóttir gefur kost á sér í prófkjörinu en Helgi Hrafn Gunnarsson ekki.

Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, sem öll hafa setið á þingi fyrir Pírata ýmist sem þingmenn eða varaþingmenn eru í prófkjöri. Þá er Þór Saari, sem sat á þingi fyrir Borgarahreyfinguna á síðasta kjörtímabili, einnig á meðal þeirra sem eru í framboði.

mbl.is

Bloggað um fréttina