Pawel gengur til liðs við Viðreisn

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur.
Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur. mbl.is

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur á Fréttablaðinu, hefur gengið til liðs við Viðreisn og lýst yfir áhuga á að taka eitt af efstu sætum framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar. Hann greindi frá ákvörðun sinni á Twitter og Facebook í morgun.

Í samtali við mbl.is segist Pawel trúa á borgaraleg réttindi, frjálsan markað og alþjóðlega samvinnu og eigi hann því mestu samleiðina með Viðreisn. „Hugmyndafræðilega hef ég verið að hugsa, ef ég væri að skrá mig í flokk í dag, hvaða flokkur yrði það,“ segir Pawel. „Sá flokkur sem ég myndi velja mér í dag væri Viðreisn og þá verður svo að vera, að ég gangi í þann flokk sem ég á mesta samleið með.“

Pawel hefur lengi verið virkur í Sjálfstæðisflokknum, hefur verið á framboðslista flokksins í Reykjavík og sótt landsfundi flokksins. Hann hefur aftur á móti verið hlynntur inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem óneitanlega að hans sögn er meðal þess sem réð ákvörðun hans að ganga til liðs við Viðreisn, en hann tilkynnti um úrsögn sína úr Sjálfstæðisflokknum í morgun.

„Ég hef velt fyrir mér þeirri siðferðislegu spurningu, segjum að ég færi í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn, stæði í prófkjörssal í Valhöll og yrði spurður: Pawel, hvernig getur þú farið í framboð fyrir flokk hafandi skoðun á máli sem flestir hafa aðra skoðun á. Það yrði ekki auðvelt að svara þeirri spurningu,“ segir Pawel. „Þá finnst mér hreinna að fara í flokk þar sem fleiri eru sammála mér um þessi mál.“

Hann segist hafa komið áhuga sínum á framfæri til uppstillingarnefndar Viðreisnar sem kemur til með að raða á lista flokksins fyrir kosningarnar. Hann segir að talað sé um að listar flokksins verði klárir í lok þessa mánaðar, og er það í samræmi við þau svör sem mbl.is hefur áður fengið frá forystumönnum flokksins um tímasetninguna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina