„Þetta var hreinskiptinn fundur“

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, segir að hreinskiptar umræður hafi farið fram á miðstjórnarfundi flokksins sem fór fram í dag. Spurður nánar út í það sem fór fram segir hann: „Ég fer ekki yfir það sem gerist á lokuðum fundi.“

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fór fram á Akureyri í dag. Sigurður Ingi er á meðal þeirra sem kvöddu sér hljóðs á fundinum eftir opnunarræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Ræða Sigmundar var opin og m.a. sýnd í beinni útsendingu á vef RÚV. Það sem Sigurður sagði fór hins vegar fram fyrir luktum dyrum.

„Þetta var hreinskiptinn fundur“

Spurður út í það sem hann vildi ræða segir Sigurður að það hafi verið eðlilegt að rödd forsætisráðherra heyrðist á fundinum. Spurður hvort hann hafi viljað koma einhverju sérstöku á framfæri segir hann: „Ég var að fara yfir hvernig ríkisstjórnin hefur verið að standa að málum og hvernig við hygðumst ljúka þeim stórum málum sem við höfum lofað að ætla að gera.“

Spurður hvort hann hafi komið fram með gagnrýni á núverandi formann, forystuna eða aðra samflokksmenn segir Sigurður: „Ég hef nú bara þá pólisíu að ræða ekki það sem ég segi í ræðustól á lokuðum fundum.“ Hann bætti síðan við: „Þetta var hreinskiptinn fundur og mjög góður að því leytinu.“

Tjáir sig ekki um varaformannsembættið - framtíðin og forystan rædd

Þá var Sigurður spurður hvort hann hefði sagt af sér sem varaformaður flokksins, en það hefur mbl.is eftir óstaðfestum heimildum.

„Eins og ég segi, ég fer ekki yfir það sem gerist á lokuðum fundi. Það er bara í röðum okkar framsóknarmanna. En auðvitað var verið að ræða framtíðina, bæði forystu og málefni. En aðalatriðið var að á þessum fundi var ákveðið að halda flokksþing 1. og 2. október og þar verður tækifæri til hvoru tveggja, klára málefnavinnuna og kjósa forystu, hvort sem hún er endurnýjuð eða ný kosin,“ segir Sigurður, sem hvorki játaði þessu né neitaði.

Styður þann formann sem flokkurinn kýs

Spurður hvort hann styðji núverandi formann, Sigmund Davíð, til að gegna formennsku áfram segir Sigurður: „Eins og ég hef alltaf sagt, þá styð ég þann formann sem flokkurinn kýs. Er flokksmaður af lífi og sál.“

Þá vill Sigurður ekkert segja um það hvort hann hafi hug á því að sækjast eftir formannsembættinu. „Enda gerðist ekkert á þessum miðstjórnarfundi, það er flokksþingið þar sem hlutirnir gerast,“ segir Sigurður.

Betri fundur en hann átti von á

Almennt um fundinn segir Sigurður: „Fundurinn var á margan hátt betri en ég átti von á. Það var mjög góð mæting á hann og hreinskiptar umræður, og að því leytinu ágætis start fyrir undirbúning undir flokksþing og síðan kosningar,“ segir Sigurður. Eins og greint hefur verið frá var ákveðið að flokksþing Framsóknarflokksins færi fram fyrstu helgina í október.

Spurður hvers vegna hann hafi talið fundinn á „margan hátt betri“ en hann átti von á segist Sigurður hafa talið að fundurinn yrði fámennari og umræður litlar. Annað hafi komið á daginn.

Sigmundur setti tölur í samhengi

Spurður út í opnunarræðu Sigmundar Davíðs segir Sigurður að komið hafi mjög skýrt fram í máli Sigmundar sá mikli árangur sem hafi náðst á þessu kjörtímabili.

„Hann setti þær tölur í samhengi, bæði Icesave, skuldaleiðréttinguna en ekki síst niðurstöðuna við kröfuhafa slitabúanna. Þvílíkur ávinningur sem þar hafi orðið og sú breyting sem það hefur skilað af sér í efnahagsmálum þjóðarinnar sem við munum lifa á um langa framtíð,“ segir Sigurður.

Öryggi fjárskiptatækja og samskipti rædd í Stjórnarráðinu

Sigmundur Davíð sagði enn fremur frá samskiptum hans við fulltrúa slitabúa föllnu bankanna. Hann fullyrti m.a. að brotist hefði verið inn í tölvuna hans. Spurður út í málið og hvort það hefði verið rætt í ríkisstjórn og hvort málið hafi verið rannsakað af lögreglu segir Sigurður að hann þekki það mál ekki sérstaklega og vísaði á Sigmund hvað það varðar.

Sigurður segir að öryggi fjarskiptatækja og samskipta hafi almennt verið rætt, bæði á fundum Framsóknarflokksins og á fundum ríkisstjórnarinnar. Það sé stöðugt til skoðunar í Stjórnarráðinu, þ.e. hvernig megi bæta það.

Þegar Sigurður var aftur spurður út í tölvuinnbrotið og hvort lögreglurannsókn hefði farið fram svaraði hann: „Þú verður að ræða það við hann, ég þekki það ekki alveg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert