„Ég er sátt við mína niðurstöðu“

Bryndís Haraldsdóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Ljósmynd/Bryndís Haraldsdóttir

„Ég er sátt við mína niðurstöðu, en ég get alveg tekið undir það að það sé óæskilegt að hafa konu fyrst í fimmta sætinu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Bryndís bauð sig fram í fjórða sætið en hlaut það fimmta í prófkjörinu og segist una vel við sitt.

Bryndís segist hins vegar harma hversu konur virðist hafa átt erfitt uppdráttar í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Reykjavík og Suðurkjördæmi. Spurð hvort hún hafi einhverjar skýringar á þessu segir hún að í Suðvesturkjördæmi hafi þrír þingmenn og einn varaþingmaður, sem rekið hafi öfluga kosningabaráttu, náð efstu sætunum. „Þannig að það er svo sem ekkert sem kemur á óvart hvað það varðar.“

Ekki megi gleyma því að kjördæmisráðið á eftir að samþykkja endanlegan framboðslista. „Ég mun hins vegar sjálf ekki skipta mér neitt af þeirri umræðu. Hvort þessu verði breytt eða annað. Það er annarra að taka þá ákvörðun og þá umræðu. Eins og ég segi er ég ánægð með minn árangur í prófkjörinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert