Leiðir lista Íslensku þjóðfylkingarinnar

Gústaf Níelsson.
Gústaf Níelsson. Jim Smart

Gústaf Níelsson, sagnfræðingur, mun leiða lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík norður í komandi Alþingiskosningum. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni í kvöld. 

Gústaf segir að foringjar flokksins hafi leitað til hans og óskað eftir að hann skipaði efsta sætið. Það hafi komið nokkuð flatt upp á hann, enda hafi hann verið handgenginn Sjálfstæðisflokknum um áratugaskeið og gegnt fyrir þann flokk margvíslegum trúnaðarstörfum. Hann segir leiðir sínar og flokksins þó ekki lengur liggja saman.

Afstöðu minni ræður mest að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þeim málum, sem heitast brenna á allri Evrópu um þessar mundir, en það eru málefni hælisleitenda og flóttamanna og íslamsvæðing álfunnar með fulltingi vinstri róttæklinga allra flokka,“ skrifar hann og heldur áfram:

„Undanlátssemi Sjálfstæðisflokksins í þessum fullveldis- og sjálfstæðismálum þjóðarinnar er slík að ekki verður við unað. Um þau ósköp bera nýsamþykkt lög um málefni útlendinga, sem taka eiga gildi um næstu áramót, skýrast vitni.“

Gústaf, sem hefur verið flokksbundinn Sjálfstæðismaður, var í janúar sl. skipaður varamaður í mannréttindaráð Reykjavíkur fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina, en skipan hans var dregin til baka eftir að fjallað var um ummæli hans í garð múslima og hinsegin fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert