Gott veganesti í formannssætið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gæti orðið sjálfkjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gæti orðið sjálfkjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi flokksins sem fram fer um næstu helgi. mbl.is/Golli

Sigur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í 1. sæti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í dag mun styrkja hann í formannsbaráttu flokksins. Það er mat Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðings. Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram um næstu helgi.

„Þetta er gríðarsterk kosning fyrir Sigmund, það fer ekki á milli mála, og hlýtur að vera mjög gott veganesti í baráttunni um formannssætið, ef það verður þá einhver barátta. Eins og staðan er núna gæti jafnvel farið svo að það yrði sjálfkjörið í formannsembættið, nema að Sigurður Ingi gefi kost á sér,“ segir Stefanía í samtali við mbl.is.  

Sjálfkjörinn formaður?

Stefanía telur hverfandi líkur að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, muni sækjast eftir formannsembættinu. „Hún hefur sagt að hún sé að íhuga að gefa kost á sér í embætti varaformanns, sem Sigurður Ingi segist ekki vilja vera í ef Sigmundur er formaður flokksins,“ segir Stefanía. Því gæti einnig fylgt talsverð áhætta að þingmaður flokksins úr Reykjavík gegni formennsku flokksins. „Ókosturinn við að Lilja sæki fram eða einhvers konar málamiðlun verði um að hún verði formaður flokksins er að það er ótryggt með sæti í Reykjavík. Það hefur oft verið á brattann að sækja fyrir flokkinn í Reykjavík.“

Stefanía vísar í dæmi frá árinu 2007 þegar Jón Sigurðsson, sem var óvænt kosinn formaður flokksins eftir fráhvarf Halldórs Ársgrímssonar úr stjórnmálum árið 2006, náði ekki kosningu í alþingiskosningunum 2007 og sagði í framhaldinu af sér sem formaður flokksins.

„Sigurður Ingi hefur hins vegar sterka stöðu í sínu kjördæmi og líklegt að hann verði kosinn. Hann hefur fengið nokkrar áskoranir og nú er bara spurning hvort hann bjóði sig fram eða ekki. Ef hann gerir það ekki stefnir allt í að Sigmundur Davíð verði sjálfkjörinn,“ segir Stefanía.  

Svo að það gerist að Sigurður Ingi bjóði sig fram telur Stefanía að hann þurfi að stíga fljótt fram eða að skora þurfi á hann af meiri þunga en gert hefur verið hingað til.

Sigmundur Davíð á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í dag.
Sigmundur Davíð á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í dag. Ljósmynd/Birkir Fanndal

Meiri stuðningur en fyrir fjórum árum

Sigmundur Davíð hlaut af­ger­andi kosn­ingu með 170 at­kvæði eða 72% atkvæða. Sigmundur bauð sig fyrst fram í kjördæminu fyrir fjórum árum og fékk þá 63% atkvæða í fyrsta sæti.

Stefanía telur að augljóst sé að Sigmundur Davíð hafi notið mikils trausts meðal þeirra sem sóttu fundinn.

„Það hefur verið unnið gott starf að tryggja að stuðningsmenn Sigmundar skiluðu sér á fundinn. Hann nýtur mikils trausts í kjördæminu þrátt fyrir ýmis orð sem hafa fallið í fjölmiðlum, sérstaklega í vor, en þá voru einhverjir forystumenn í hans kjördæmi sem voru harðorðir í hans garð.“  

Stefanía segir úrslitin vera styrkleikamerki fyrir Sigmund Davíð sem mun styrkja hann í formannsbaráttunni. „Ef það verður þá einhver barátta. Stemningin í kjördæmi Sigmundar Davíðs er með honum og það hjálpar honum inn á flokksþingið.“

Aðspurð um hvaða þýðingu það hefur fyrir Framsóknarflokkinn í alþingiskosningunum í október ef Sigmundur Davíð verður kjörinn formaður flokksins næstu helgi segir Stefanía að það verði að koma í ljós hvaða áhrif það hafi á heildarfylgi flokksins.

„Það er ákveðin áhætta sem flokkurinn tekur.“mbl.is