Kosningastjóri Pírata rekinn

Píratar
Píratar

Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri Pírata, lét í gær af störfum. Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir að ástæðan sé sú að ágreiningur hafi verið um framkvæmd kosningabaráttunnar. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

„Nú er grasrótin tekin við og það er búið að skipa kosningastjórn,“ sagði Sigríður Bylgja jafnframt. Jóhann tekur undir skýringar Sigríðar Bylgju. „Það var smá ágreiningur um það hvaða leiðir við myndum fara í þessari kosningabaráttu.“ .

Jóhann segir uppsögnina ekki tengjast þeim ágreiningi sem varð um val á lista í Norðvesturkjördæmi Á Facebook segist Jóhann að framkvæmdastjóri og framkvæmdaráð Pírata hafi óskað eftir því að hann segði upp störfum.

„Ég hef vegna óska frá framkvæmdaráði og framkvæmdastjóra Pírata látið af störfum kosningastjóra Pírata frá og með í dag. Ég mun því hverfa af þessum vettvangi og snúa mér að öðrum verkefnum.

Það hefur verið gaman og krefjandi að taka þátt í þessu framboði Pírata. Eflaust eru deildar meiningar hvernig til hefur tekist en ég hef a.m.k. lagt það sem ég átti að gefa í þetta verkefni af heilu hjarta.

Síðasta mæling sýnir Pírata stærsta stjórnmálaflokk landsins ásamt xD sem mælast jafnir með 22,7% fylgi, þegar rúmur mánuður er til þingkosninga. Þetta er niðurstaða nýjustu könnunar MMR sem var birt í dag, sem kannaði fylgi stjórnmálaflokka á tímabilinu 12. til 19. september.

Ég kýs að nota skoðanakannanir til að styðjast við hvernig hefur miðað, og auðvitað á endanum niðurstöður kosninganna sem endanlegan mælikvarða á árangur.

Píratar hafa náð að halda sjó gegnum erfið prófkjör og stundum erfiðar innri umræður. Það segir mér að framboðið var á réttri leið. Líklega er versta bakslagið sem upp hefur komið hjáseta þinghópsins við atkvæðagreiðslu búvörusamningsins. Þar á grasrótin sinn þátt að mínu mati.

Ég óska Pírötum velfarnaðar í kosningunum og á vettvangi stjórnmálanna. Það liggja mörg krefjandi verkefni fyrir fótum þeirra sem komast í þá stöðu að fá þingsæti eða jafnvel ráðherrastól að loknum kosningum. Mitt ráð til þeirra er að vera auðmjúk, láta verkin tala, hjartað vera með í ráðum og sýna háttvísi í samskiptum.“

mbl.is