„Aldrei, aldrei, aldrei“

Sigmundur Davíð ræðir við blaðamenn að loknum þingflokksfundi í gær.
Sigmundur Davíð ræðir við blaðamenn að loknum þingflokksfundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hyggst enn sækjast eftir endurkjöri sem formaður Framsóknarflokksins. Hann segir Sigurð Inga Jóhannsson, sem tilkynnti framboð sitt í gær, ekki hafa staðið við það sem talað var um þegar Sigurður tók við af Sigmundi sem forsætisráðherra, auk þess sem Sigurður hafi sagt að hann myndi aldrei fara fram á móti honum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Sigmundur sagði ákvörðun Sigurðar Inga vonbrigði en hún kæmi ekki á óvart í ljósi atburða síðustu vikur og misseri. Sigmundur sagði Sigurð Inga hafa lofað tvennu þegar hann tók við forsætisráðherrastólnum; annars vegar að hann myndi ekki notfæra sér stöðuna til að fara á móti sér og hins vegar að Sigmundur yrði upplýstur um gang mála.

Frétt mbl.is: Sigmundur „ekkert hrópandi kátur“

Spurður að því hvort hann upplifði að Sigurður Ingi hefði svikið sig sagði Sigmundur að Sigurður hefði ítrekað sagt við sig að hann myndi aldrei fara fram gegn honum. Þá hefði Sigurður sagt það við aðra á fundum að hann myndi „aldrei, aldrei, aldrei“ bjóða sig fram gegn Sigmundi í formannskjöri.

Í viðtalinu við RÚV sagði Sigmundur stöðu Framsóknarflokksins nú svipaða og oft áður á kjörtímabilinu og þokkalega miðað við umfjöllunina undanfarið. Hann svaraði því játandi að staðan innan flokksins væri vond og sagði ekki gott fyrir flokk að standa í innbyrðis átökum fyrir kosningar.

Sagðist Sigmundur hafa verið tilbúinn til að leggja mikið á sig til að leita lausna á þeim vanda sem blasti við, en sagðist svo ekki vita hver vandinn væri í raun nema sá að Sigurður Ingi vildi halda áfram að vera leiðandi í flokknum.

Sigmundur sagðist hafa reynt að ná fundi Sigurðar Inga frá því að miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fór fram, en Sigurður hefði ekki séð sér fært að hitta hann fyrr en á þingflokksfundinum í gær.

Formaðurinn sagðist ætla að taka þátt í pólitík og berjast í pólitík á meðan hann tryði því að hann gæti gert gagn. Tækifæri Íslands hefðu aldrei verið jafn mikil en  hætturnar væru sömuleiðis verulegar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í kvöldfréttum RÚV var einnig rætt við Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem hefur sagt að hún muni sækjast eftir varaformannsembættinu innan Framsóknar að því gefnu að Sigmundur Davíð nái ekki endurkjöri.

Hún sagði m.a. að Sigmundur hefði fengið tækifæri til að endurheimta það traust sem hefði tapast í vor en það hefði ekki tekist. Flokksmenn hefðu kallað eftir því með fordæmalausum hætti að fá að taka ákvörðun um framhaldið.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur einnig lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga.

mbl.is

Bloggað um fréttina