Lilja Dögg styður Sigmund Davíð

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson til áframhaldandi formennsku, en kosið verður á milli þeirra Sigmundar og Sigurðar Inga Jóhannssonar á flokksþingi Framsóknarflokksins næstu helgi.

„Þetta eru báðir úrvalsmenn sem hafa staðið sig mjög vel,“ segir Lilja Dögg. Segir hún Sigmund hafa staðið sig mjög vel í forsætisráðherratíð sinni og farið fyrir ríkisstjórn sem náð hafi frábærum árangri á kjörtímabilinu. Sigurður Ingi hafi komið inn í „mjög þrönga stöðu og hefur honum gengið mjög vel,“ segir Lilja Dögg. „Ég er klár á því að við erum með tvo úrvalsmenn.“

Frétt mbl.is: Lilja íhugar varaformanninn

Spurð út í hugsanlegt varaformannsframboð sitt kveðst Lilja enn vera að íhuga það, en Eygló Harðardóttir greindi frá framboði sínu til varaformanns í gær. „Ég er enn að íhuga það. Ég er að tala við mitt fólk og meta stöðuna,“ segir Lilja Dögg. Hún á von á því að ákvörðunin liggi fyrir á næstu dögum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina