Telur Framsókn vera í algjörum sárum

Birgitta Jónsdóttir Pírati.
Birgitta Jónsdóttir Pírati. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sigurður Ingi er bara hinn vænsti maður,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, um nýjan formann Framsóknarflokksins. Telur hún flokkinn þó vera í sárum og þurfi eflaust að hlúa fyrst að sínu innra starfi áður en hann er tækur til stjórnarsamstarfs.

Birgitta segir það frekar vera stefnumálin heldur en fólkið sem skipti höfuðmáli þegar kemur að möguleikum við stjórnarmyndunarviðræður og tekur þannig í svipaðan streng og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Frétt mbl.is: Snýst frekar um málefnin en einstaklinginn

Í samtali við mbl.is segir Birgitta að Framsóknarflokknum hafi gengið ákaflega illa að standa við gefin loforð, til að mynda er lúta að því standa við stóru orðin um málefni eldri borgara og öryrkja og viðhorf til stjórnarskrármálsins.

„Þeir eiga náttúrlega eftir að koma með sínar áherslur og við höfum ekkert afskrifað neina flokka en sumir flokkar aftur á móti afskrifa sig,“ segir Birgitta. Séu flokkar algjörlega á öndverðum meiði með sínar áherslur geti reynst erfitt að miðla málum.

Laga þurfi innra starfið fyrst

„Maður á alveg eftir að heyra hvernig Sigurður Ingi og þessi nýja forysta ætlar að leggja sínar áherslur en ég held bara að flokkurinn sé í algjörum sárum,“ segir Birgitta. Ef til vill þurfi flokkurinn heldur að einbeita sér að því að laga innra starfið áður en hann er tækur til stjórnarsamstarfs. „Það er voðalega erfitt að vera með fókus þegar það eru mikil leiðindi og innri væringar.“ 

Þó telur Birgitta að geti verið gott fyrir Framsókn að einhverju leyti að hafa kosið sér nýjan formann. „Ég held það verði meiri friður hjá þeim, það er búið að vera örugglega svolítið erfitt.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert