Kynna aðgerðir til útrýmingar launamunar kynjanna

Ljósmynd/Birna Þórarinsdóttir

Viðreisn kynnti í dag aðgerðir sínar sem ætlað er að útrýma óútskýrðum launamun kynjanna. Hefur flokkurinn samið frumvarp til breytinga á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Í tilkynningu frá Viðreisn segir að með frumvarpinu yrði fyrirtækjum og stofnunum, sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri, gert skylt að undirgangast jafnlaunavottun samhliða ársreikningsskilum.

„Óútskýrður kynbundinn launamunur er ólöglegur og hefur verið um árabil. Þrátt fyrir þetta er óútskýrður kynbundinn launamunur viðverandi vandamál á vinnumarkaði og hefur staðið í stað, í 10%, síðustu 10 árin skv. nýjustu könnun VR,“ segir í tilkynningunni og telur Viðreisn stjórnvöld hafa brugðist eftirlitshlutverki sínu hvað þetta varðar.

Þá segir flokkurinn að með aðgerðunum verði gert opinbert ef fyrirtæki og stofnanir fremja lögbrot í launastefnu sinni. „Með þessum hætti verða almannahagsmunir settir í forgang og óútskýrður kynbundinn launamunur upprættur,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert