Ræða mögulega vinstri stjórn

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna, Oddný G. Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og …
Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna, Oddný G. Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Óttarr Proppé. mbl.is/Golli

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri-grænna ætla að hittast og ræða mögulegt samstarf milli flokkanna á sunnudag klukkan 11. Fundurinn fer fram á Litlu Lækjarbrekku.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni fyrir stundu. Í færslunni kemur fram að fulltrúar flokkanna muni fara yfir sín forgangsmál og ræða samstarfsfleti í framhaldi kosninga.

Útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, útilokaði fyrr í dag að flokkurinn myndi vinna með Sjálfstæðisflokki eftir kosningarnar.

„Það er alvanalegt í aðdraganda kosninga að miðjuflokkar reyni að setja af stað orðróm um að vinstri flokkurinn á hverjum tíma ætli að taka upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Slík herferð er nú farin af stað í þessum anda,“ segir í Facebook færslu Svandísar.

Svandís segir jafnframt að samstarf af þessu tagi hafi einhvern tíma verið á dagskrá fyrr á árum. Það sé hins vegar ekki möguleiki nú. „Það er óhugsandi við núverandi kringumstæður eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna. Þetta hljóta allir að sjá.“

Miðað við niðurstöður nýjustu könnunar Félagsstofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið er tveggja flokka meiri­hluta­stjórn ekki mögu­leg, en all­nokkr­ir mögu­leik­ar eru á þriggja flokka stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert