Viðreisn útilokar engan flokk

Benedikt Jóhannesson, formaður og stofnandi Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður og stofnandi Viðreisnar. mbl.is/Golli

„Við leggjum mjög mikla áherslu á það að ríkissjóður verði hallalaus. Það versta sem hægt væri að gera íslensku þjóðinni væri að skuldsetja hana meira í góðæri,“ sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is í kjölfar blaðamannafundar sem Viðreisn boðaði til í hádeginu í dag. 

Á fundinum var kynnt ítarleg áætlun um breytingar á útgjalda-og tekjuliðum, sem Viðreisn stefnir á að framkvæma á komandi kjörtímabili, þar sem útlistað var hvernig hver útgjaldaaukning yrði fjármögnuð. Benedikt segir að ábyrgð í ríkisfjármálum sé skilyrði Viðreisnar fyrir stjórnarmyndun. 

Frétt mbl.is: Viðreisn sýnir spilin fyrir kosningar

„Það er rík krafa frá okkur að menn sýni ábyrgð í ríkisrekstri því við tölum um stöðugleika með því að festa gengið en sá stöðugleiki verður fyrir bí ef við höfum ekki samvinnu vinnumarkaðarins annars vegar og hinsvegar ef ríkissjóður sýnir ekki ábyrgð. Ef einhver skerst úr leik þá klikkar allt kerfið.“

Viðreisn er fyrstur flokka fyrir komandi alþingiskosningar til að setja fram ítarleg áætlun um fjármögnunarhlið kosningaloforða og vonar Benedikt að hugmyndin setji ákveðið fordæmi.

„Það væri skemmtilegt ef fleiri tækju upp þessa hugmynd í stað þess að lofa upp í ermina á sér og ermar kjósenda almennt. Við sjáum hefðbundnu stjórnmálaflokkana setja fram loforð og sumir hafa jafnvel sett verðmiða á loforðin. Við setjum hinsvegar fram áætlun sem tiltekur í smáatriðum hvað sé sett í hvern málaflokk og hvernig eigi að borga fyrir það.“

Tilbúin að vinna með sérhverjum flokki

Fyrir tæpri viku vakti athygli þegar Benedikt sagði að rík­is­stjórn Fram­sókn­ar, Sjálf­stæð­is­flokks, og Við­reisn­ar kæmi ekki til greina eft­ir kosn­ing­ar og túlkuðu sumir ummælin þannig að Viðreisn hafnaði samstarfi með hvorum flokki fyrir sig. Spurður um afstöðu til stjórnarmyndunar segir Benedikt að Viðreisn útiloki ekki einn eða neinn, ummælin hafi aðeins átt við samstarf með báðum núverandi stjórnarflokkum. 

Frétt mbl.is: Fara ekki í samstarf með stjórnarflokkunum

„Við höfum lagt mikla áherslu á það að við værum tilbúin að vinna með sérhverjum flokki hvort sem það er Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri-græn, Samfylkingin, Björt framtíð eða Píratar svo maður telji þá alla upp.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert