Píratar og Panama

Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með þingkosningum á Íslandi í dag og hefur mikið verið fjallað um þær undanfarna viku. Einkum er það mikið fylgi Pírata í skoðanakönnum og að boðað hafi verið til kosninga fyrr vegna Panamaskjalanna sem vekur athygli erlendra fjölmiðla.

Kjörtímabilinu átti ekki að ljúka fyrr en næsta vor en í kjölfar upplýsinga sem birtar voru í Panamaskjölunum í byrjun apríl sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson af sér sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, tók við embættinu. Fljótlega var farið að ræða um að kjósa í haust og undir lok sumars var ákveðið að alþingiskosningar færu fram í dag.

Undanfarið ár hefur fylgi Pírata mælst um og yfir 20% en hefur dalað undanfarna daga á sama tíma og fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur vaxið. Píratar fengu þrjá menn kjörna á þing í alþingiskosningunum 2013 en samkvæmt skoðanakönnun Gallup sem birt var í gær fengi flokkurinn 12 menn kjörna á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 19 þingmenn árið 2013 og samkvæmt Gallup fær Sjálfstæðisflokkurinn 19 þingmenn einnig nú.

Gott gengi Pírata í skoðanakönnunum er umfjöllunarefni allra fjölmiðla sem fjalla um kosningarnar enda flokkurinn stofnaður árið 2009 af hópi fólks sem var á móti ríkjandi skipulagi. 

AFP-fréttastofan hefur eftir Ólafi Harðarsyni stjórnmálafræðiprófessor að vinsældir Pírata megi rekja til reiði almennings í kjölfar hrunsins árið 2008 þegar þrír helstu bankar landsins urðu gjaldþrota og efnahagskreppan reið yfir.

Flestir þeirra fjölmiðla sem blaðamaður mbl.is renndi yfir í morgun voru með fréttir af þingkosningunum á Íslandi á forsíðu og margir með hana sem efstu eða næstefstu frétt. Alls staðar eru það Píratar og Panamaskjölin sem eru í fyrirsögn eða inngangi fréttanna. 

Fyrirsögn Politiken er: Det skete på 10 år i Island: Et boom, et krak og et skattely eða Þetta gerðist á tíu árum á Ísland: Uppsveifla, hrun og skattaundanskot.

Umfjöllun BBC

Umfjöllun Aftenposten

Umfjöllun Deutche Welle 

Umfjöllun New York Times

Umfjöllun Al Jazeera

Umfjöllun Washington Post

Umfjöllun CBC

Umfjöllun Daily Beast

Umfjöllun Telegraph

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun Le Monde

Umfjöllun Figaro 

Umfjöllun Svenska dagbladet

Umfjöllun Politiken

Umfjöllun Sky

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert