Lágmark þriggja flokka ríkisstjórn

Nú taka við stjórnarviðræður, en engir tveir flokkar geta myndað …
Nú taka við stjórnarviðræður, en engir tveir flokkar geta myndað ríkisstjórn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú þegar lokatölur úr öllum kjördæmum liggja fyrir er ljóst að ekki er hægt að mynda tveggja flokka stjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, staðfesti í formannsspjalli RÚV í nótt að hann myndi ganga á fund forseta og skila umboði sínu. Sagði hann við það tækifæri að eðlilegast væri að Sjálfstæðisflokkurinn fengi stjórnarmyndunarumboðið.

Bjarni Benediktsson ,formaður Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er stærsti flokkur landsins með …
Bjarni Benediktsson ,formaður Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er stærsti flokkur landsins með 29% atkvæða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lokaniðurstaðan á landinu öllu er eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkur: 29,0% - 21 sæti (bæta við sig 2 sætum)

Vinstri græn: 15,9% - 10 sæti (bæta við sig 3 sætum)

Píratar: 14,5% - 10 sæti (bæta við sig 7 sætum)

Framsóknarflokkur: 11,5% - 8 sæti (missa 11 sæti)

Viðreisn: 10,5% - 7 sæti (kemur nýr inn)

Björt framtíð: 7,2% - 4 sæti (missa 2 sæti)

Samfylkingin: 5,7% - 3 sæti (missa 6 sæti)

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknar, mun skila umboði sínu til …
Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknar, mun skila umboði sínu til forseta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Garðarsson og Sigríður Ingibjörg detta út í Reykjavík norður

Í Reykjavíkurkjördæmi norður heldur Sjálfstæðisflokkurinn þremur þingmönnum, Vinstri grænir bæta við sig þingmanni og eru einnig með þrjá þingmenn og Píratar fara úr einum þingmanni í þrjá. Björt Framtíð heldur sínum þingmanni í kjördæminu og Viðreisn nær inn manni. Framsókn missir aftur á móti tvo þingmenn og sömuleiðis Samfylkingin.

Þar með er ljóst að hvorki Karl Garðarsson, oddviti Framsóknarflokksins, né Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, oddviti Samfylkingarinnar, komast inn.

Össur Skarphéðinsson úti en Lilja Alfreðsdóttir inni í Reykjavík suður

Í Reykjavíkurkjördæmi suður fær Sjálfstæðisflokkurinn þrjá þingmenn eins og í síðustu kosningum. Vinstri grænir og Píratar bæta við sig einum manni og fá báðir flokkar tvo þingmenn. Viðreisn kemur inn með tvo þingmenn í sínum fyrstu kosningum og Framsóknarflokkur og Björt framtíð fá einn mann hvort framboð. Missa þau bæði einn þingmann.

Össur Skarphéðinsson er dottinn út af þingi eftir fjölmörg ár …
Össur Skarphéðinsson er dottinn út af þingi eftir fjölmörg ár sem bæði ráðherra og þingmaður. Eggert Jóhannesson

Er þá ljóst að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins kemst á þing, en Hildur Sverrisdóttir,  sem var í fjórða sæti Sjálfstæðisflokksins er úti. Össur Skarphéðinsson, sem hefur um langt árabil setið á þingi, er einnig úti eftir útslit kvöldsins.

Vilhjálmur Bjarnason nær inn í Suðvestur

Sjálfstæðisflokkurinn heldur fimm mönnum í Suðvesturkjördæmi og er þar lang stærsti flokkurinn. Píratar, Viðreisn og Björt framtíð fá þar tvo þingmenn hvert framboð, en fyrir voru Píratar og Björt framtíð með einn þingmann og Viðreisn kemur inn sem nýr flokkur í ár. Framsóknarflokkur nær einum þingmanni, en var síðast með 2 þingmenn.

Samkvæmt þessu er Vilhjálmur Bjarnason inni fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Theodóra S. Þorsteinsdóttir kemur ný inn fyrir Bjarta framtíð á uppbótarsæti. Þá er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, orðinn nýr þingmaður fyrir Viðreisn í kjördæminu.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Flokkur hennar bætti mikið við …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Flokkur hennar bætti mikið við sig og náði 10 þingmönnum. mbl.is/Eggert

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við manni í Norðvestur

Í Norðvesturkjördæmi bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig manni og nær þremur þingmönnum. Framsókn missir einn þingmann og endar með tvo þingmenn. Vinstri grænir, Píratar og Samfylking ná öll inn einum þingmanni, en áður voru Vinstri grænir og Samfylking með sinn manninn hvort framboð.

Benedikt nær uppbótarsæti í Norðaustur

Í Norðausturkjördæmi missir Sjálfstæðisflokkurinn einn þingmann en er áfram stærsti flokkurinn með þrjá þingmenn. Framsókn og Vinstri grænir ná tveimur þingmönnum hvort framboð, en Framsókn missir tvo þingmenn frá fyrri kosningum.

Samfylking, Píratar og Viðreisn ná öll inn þingmanni, en Samfylkingin var áður með einn þingmann. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar kemur inn á uppbótarþingsæti og Samfylkingin náði síðasta kjördæmiskjörna sætinu sem Logi Már Einarsson mun skipa.

Björt framtíð missti einn þingmann, en Viðreisn náði sjö þingmönnum …
Björt framtíð missti einn þingmann, en Viðreisn náði sjö þingmönnum í fyrstu tilraun. Eggert Jóhannesson

Framsókn missir tvo í Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi heldur Sjálfstæðisflokkurinn fjórum þingmönnum og er stærsti flokkurinn. Framsókn missir tvo þingmenn og nær tveimur inn í ár. Píratar, Vinstri grænir, Viðreisn og Samfylking ná öll inn manni, en Vinstri grænir og Píratar eru að bæta við sig manni á meðan Samfylking heldur velli og Björt framtíð er að tapa manni.

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, komst inn sem uppbótarþingmaður.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, komst inn sem uppbótarþingmaður. mbl.is/Golli

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, kemst inn á uppbótarsæti og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins heldur sínu sæti. Þá kemur Ari Trausti Guðmundsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, nýr inn sem oddviti Vinstri grænna.

mbl.is