Ræddi við formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar

Formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins er ...
Formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins er sagður hafa rætt við þá í gær um mögulega stjórnarmyndun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur haft samband við Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar um mögulega myndum nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Ríkisstjórn þessara þriggja flokka hefði nauman meirihluta 32 þingmanna.

Haft er eftir Björt Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar, að ekki séu margir kostir í stöðunni. „Við höfum áður sagt að við útilokum ekkert þó að mikið þurfi að ganga á til að við göngum til samstarfs með Framsóknarflokki,“ segir Björt. „Það er lítið sem ber í milli okkar og Viðreisnar og það hefur verið að koma betur og betur í ljós í kosningabaráttunni. Afdráttarlausar yfirlýsingar annarra formanna hafa einnig fækkað mögulegum ríkisstjórnarmyndunum þannig að það er ekki um marga aðra kosti að ræða.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, vildi hins vegar hvorki játa því né neita því hvort hann hefði átt samtal við formann Sjálfstæðisflokksins. „Ég er á þeirri skoðun að stjórnarmyndunarviðræður eigi ekki að eiga sér stað á síðum blaðanna. Við verðum að vanda til verka,“ segir Benedikt.

mbl.is