Reglur ESB „óumsemjanlegar“

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju.
Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur við Akureyrarkirkju. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri, sendi á dögunum fyrirspurn til Evrópusambandsins þar sem hann grennslaðist fyrir um það hvert eðli umsóknar að sambandinu væri. Hvort í slíkri umsókn fælist að kanna án skuldbindinga hvað væri í boði í þeim efnum eða hvort í henni fælist yfirlýsing um vilja til þess að ganga í Evrópusambandið.

Svavar segist á bloggsíðu sinni hafa viljað fá úr þessu skorið þar sem skiptar skoðanir hafi verið í umræðunni hér á landi um það hvað nákvæmlega felist í umsókn að Evrópusambandinu. Þannig hafi sumir sagt að hægt væri að sækja um inngöngu einungis til þess að sjá hvað væri í boði af hálfu sambandsins á meðan aðrir hafi sagt að ekki væri hægt að senda inn umsókn án þess að hlíta skilyrðum sem sett væru í umsóknarferlinu.

Svavar segir í samtali við mbl.is að fyrirspurnin hafi þannig einfaldlega snúist um að það lægi fyrir með skýrum hætti hvert eðli slíkra umræðna væri þannig að fólk væri betur í stakk búið til þess að mynda sér skoðun á málinu óháð því hver afstaða þess annars væri til þess hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Snúast um tímasetningu upptöku löggjafar ESB

Svar við fyrirspurninni frá upplýsingaveitu sambandsins, Europe Direct, barst tíu dögum eftir að fyrirspurnin var send til þess að sögn Svavars. Fyrirspurn hans var svohljóðandi í íslenskri þýðingu:

„Þegar ríki ákveður að sækja um inngöngu í Evrópusambandið, lítur sambandið þá á slíka umsókn annaðhvort sem 1) fyrirspurn án skuldbindinga þar sem möguleikarnir í boði fyrir umsóknarríkið eru kannaðir og fundnar mögulegar undanþágur frá óhagstæðum atriðum löggjafar Evrópusambandsins eða 2) yfirlýsingu um vilja umsækjandans til þess að ganga í sambandið í samræmi við lögformlegt fyrirkomulag inngöngu í það?“

Svar Evrópusambandsins var á þessa leið í íslenskri þýðingu:

„Reglur Evrópusambandsins sem slíkar (einnig þekktar sem acquis) eru óumsemjanlegar; þær verður að lögleiða og innleiða af umsóknarríkinu. Inngönguviðræður snúast í raun um það að samþykkja hvenær og með hvaða hætti umsóknarríkið tekur upp og innleiðir með árangursríkum hætti allt regluverk ESB og stefnur. Inngönguviðræður snúast um skilyrði og tímasetningu upptöku, innleiðingar og framkvæmdar gildandi laga og reglna ESB.

Hafa ber í huga að ESB starfrækir víðtækt samþykktarferli sem sér til þess að ný ríki eru aðeins samþykkt þegar þau geta sýnt fram á það að þau muni og geti sinnt hlutverki sínu sem fullgildir aðilar, það er með því að uppfylla allar reglur ESB og staðla, hafa samþykki stofnana sambandsins og ríkja þess og með því að hafa samþykki eigin borgara - annaðhvort í gegnum samþykki þjóðþinga þeirra eða þjóðaratkvæði.“

AFP
mbl.is