„Kunnugri afstöðu hvort annars“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum í raun og veru yfir ólíka sýn þessara flokka á ýmis málefni, svo sem skatta, auðlindagjöld, útgjöld til velferðar og menntamála,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundi sínum með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokks, en fundur þeirra varði í um tvær klukkustundir.

„Við fórum yfir þessar stóru línur og niðurstaðan er kannski sú að við erum bæði kunnugri afstöðu hvort annars,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Aðspurð segist Katrín ekki hafa sett Bjarna skilyrði fyrir samstarfi flokkanna.

„Þetta var ekki á þeim nótum, við vorum að fara yfir stóru línurnar og ég ímynda mér að það sé markmið hans með þessum fundi, að átta sig á þeim.“

Talað skýrt fyrir samstarfi til vinstri

Ari Trausti Guðmundsson, oddviti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi,  sagði í gær að „betra væri að hlusta en að skella hurðum fyrir fram“. Spurð hvort sú sé stemningin innan flokksins gagnvart stjórnarmyndunarviðræðum segir Katrín:

„Við höfum auðvitað talað mjög skýrt fyrir samstarfi til vinstri og alveg eins og ég mæti á þennan fund erum við alltaf tilbúin að hlusta. En við höfum lýst okkar sýn,“ segir Katrín. Fyrsti kostur hennar sé enn að horfa til vinstri.

„Ef það er raunhæfur möguleiki og það er það sem við höfum lagt til. Afstaða okkar hefur í raun ekki breyst frá því að forsetinn veitti Bjarna stjórnarmyndunarumboðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina