Hefur ekki áhyggjur af Sigmundi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Golli

„Fólk er að tala saman og allir halda spilunum þétt að sér. Svo eru alls konar hugmyndir fram og til baka,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.

„Við erum í samtölum og erum að tala við ýmsa,“ segir Lilja og vill ekki gefa upp hvort Framsóknarflokkurinn sé að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. „Það ríkir traust á milli aðila, þvert á flokka. Það er verið að athuga hvað er hægt að gera með það traust.

Sveinn Hjört­ur Guðfinns­son, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur, sagði í frétt í Morgunblaðinu í dag að Framsóknarflokkurinn væri gersamlega klofinn. Hann sagði það kröfu stuðningsmanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns, að ætli Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn í rík­is­stjórn­ar­sam­starf sé eina leiðin til sátta að Sig­mund­ur verði ráðherra.

Sannfærð um að lendingin verður góð

Lilja segir ekki tímabært að huga að slíkum málum á þessari stundu. „Það er ekkert tímabært að ræða ráðherraskipan í nýrri stjórn. Forysta Framsóknarflokksins velur ráðherra úr sínum röðum og gerir það á mjög skipulegan og yfirvegaðan hátt, eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Sveinn fjallar einnig um að Lilja sé sú manneskja sem gæti sætt andstæð öfl í flokknum. „Nú er ég varaformaður og er að sinna því eftir bestu getu. Við erum að vinna að því að sjá hvort við eigum samleið með öðrum flokkum er varðar ríkisstjórnarsamstarf. Við þurfum að vinna úr þeirri stöðu og ég er sannfærð um að sú lending verður góð.

Aðspurð hvort það yrðu ekki alltaf einhverjir óánægðir í flokknum hvort sem Sigmundur Davíð yrði ráðherra eða ekki, ef Framsókn verður í næstu ríkisstjórn, kvaðst Lilja ekki hafa áhyggjur af því:

„Alltaf þegar flokksþing á sér stað stuttu fyrir kosningar þá er alltaf einhver hópur sem studdi annan aðilann ósáttur. Það eiga allir að leggja sig fram við að sætta þessa aðila og ég mun svo sannarlega ekki láta mitt eftir liggja í þeim efnum frekar en formaður flokksins.“

mbl.is