Evrópumálin líklega til þingsins

Þingflokkurinn á fundi í Valhöll.
Þingflokkurinn á fundi í Valhöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tilkynnti honum að á grundvelli þeirra samtala sem ég hef átt við formenn annarra flokka að undanförnu þá teldi ég forsendur fyrir því að við hæfum nú stjórnarmyndunarviðræður formlegar milli Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kom af fundi með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, upp úr klukkan fimm og til fundar við þingflokk Sjálfstæðismanna.

Spurður hvernig til standi að taka á Evrópumálunum þar sem ólíkum stefnum væri fyrir að fara á milli flokkanna sagði Bjarni í samtali við mbl.is:

„Við erum ekki búnir að ljúka því máli en það er eitt af þeim málum, já, sem við höfum þurft að gefa okkur tíma til þess að fjalla um og það er ljóst að það ber talsvert í milli flokkanna í afstöðunni til Evrópusambandsins en ég tel að með því að við leggjum málið frekar inn til þingsins með einhverjum hætti þá finnist nú lausn á því.“

Nýta sólarhringana vel

Bjarni sagði að ekkert hefði verið ákveðið í þessum efnum.

„En ég væri ekki að fara í þessar stjórnarmyndunarviðræður nema ég tryði að við formenn þessara flokka myndum finna lausn á þessu og ég trúi því eftir þau samtöl sem við höfum átt. En það er auðvitað svo margt annað sem er eftir að ræða.

Við munum reyna að nýta vel þessa sólarhringa framundan og leggja allt kapp á að vinna hratt og markvisst næstu daga til þess að láta reyna á til fulls hvort við getum komið okkur saman um stjórnarsáttmála þannig að hægt sé að kalla saman þing í framhaldinu og ljúka mikilvægum verkum fyrir áramót.“

Segist bjartsýnn

Spurður um önnur mál, til dæmis málefni sjávarútvegs og landbúnaðar, segist Bjarni bjartsýnn á að hægt verði að lenda þeim líka. Sömuleiðis segist hann telja að hægt verði að ljúka stjórnarmyndunarviðræðum nokkuð fljótt.

Spurður hvort stjórnarmeirihlutinn yrði ekki tæpur segir Bjarni að ef menn stæðu saman og mynduðu samheldinn meirihluta þá væri hægt að ná árangri.

mbl.is

Bloggað um fréttina