Formlegar viðræður hafnar

Bjarni mætir til fundar með þingflokknum í Valhöll.
Bjarni mætir til fundar með þingflokknum í Valhöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, að hann hafi ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Sjálfstæðisflokks.

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur undanfarna daga  átt samræður við formenn annarra stjórnmálaflokka um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf, á grundvelli þess umboðs sem forseti Íslands fól honum 2. nóvember sl.

Nú síðdegis gekk Bjarni á fund forseta og tilkynnti honum að á grundvelli samtala við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, hafi aðilarnir í dag ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.“

Benedikt Jóhannsson formaður Viðreisnar og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Benedikt Jóhannsson formaður Viðreisnar og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkurinn fundar

Þingflokkur Sjálfstæðisflokks hefur verið boðaður til fundar í Valhöll klukkan 17.15, samkvæmt heimildum mbl.is. Ekki hefur fengist staðfest hvað rætt verður á fundinum en boðað var til hans með skömmum fyrirvara.

Fréttatilkynning hefur þá borist frá skrifstofu forseta Íslands:

„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti í dag, föstudaginn 11. nóvember 2016, fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um gang viðræðna hans við forystumenn annarra stjórnmálaflokka.

Formaður Sjálfstæðisflokksins tjáði forseta að ákveðið hefði verið að hefja formlegar viðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings meirihluta á Alþingi.“

Bjarni í viðtali mbl.is: Evrópumálin líklega til þingsins

mbl.is