Viðræðum haldið áfram í dag

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar halda áfram í dag en viðræðurnar hófust formlega í fyrradag. RÚV greinir frá.

Samkvæmt heimildum RÚV hófst fundur formanna flokkanna klukkan níu í morgun. Ekkert er gefið upp hvar fundurinn er haldinn en búist er við því að fundað verði fram eftir degi.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að viðræður tækju lengri tíma en áætlað hafi verið. Hann sagði ennfremur að hann vonaðist til að niðurstaða yrði komin í málið um miðja viku. „Ég held að það sé öll­um fyr­ir bestu að þetta taki sem skemmst­an tíma. Það verður fundað villt og galið á morg­un [í dag] og við höld­um áfram, það er eitt­hvert signal.“

Þekkir ekki marga vænni og skynsamari menn

Benedikt ritaði færslu á Facebook-síðu sína þar sem hann lýsti vonbrigðum með þá gagnrýni sem Óttarr Proppé hefur hlotið fyrir að taka þátt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum með Sjálfstæðisflokknum. 

Óttari Proppé hef ég kynnst á undanförnum tveimur vikum og verð að segja eftir þau stuttu kynni, að ekki þekki ég marga vænni og skynsamari menn,“ skrifaði Benedikt og bætti því við að hann og Óttar væru samstiga í því að vinnubrögð á Alþingi breyttust. 

„Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að heyra svikabrigsl, þegar flokkarnir sinna þeirri lýðræðislegu skyldu sinni að reyna að mynda starfhæfan meirihluta. Samráð um stórmál við flokka utan stjórnar í stórmálum þýðir ekki, að menn vilji að mál dagi uppi eða stjórnarflokkarnir séu að leggja eða vilji „leggja það á stjórnarandstöðuna að leysa úr því“, eins og virtir stjórnmálamenn dylgja nú um,“ skrifaði Benedikt og sagði að nú væri hægt að komast upp úr hjólförum gamalla vinnubragða og bera virðingu fyrir okkur sjálfum og pólitískum andstæðingum með því að nota ekki tortryggni, hatur og ofbeldi, allra síst þegar stjórnmál eru í eðlilegum farvegi.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig viðræðunum sem nú eru í gangi lyktar, en ég vona að þegar upp verður staðið hafi allir hlutaðeigandi verið sínum málstað trúir og reynt að finna góðar lausnir á ágreiningsmálum. Þá geta allir verið sáttir við sjálfa sig og aðra, hverjar sem niðurstöður verða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert