Ekki óleysanlegt verkefni

Flokkarnir fimm hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður.
Flokkarnir fimm hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður. mbl.is/Ófeigur

„Þessar viðræður hafa staðfest tilfinningu manns fyrir því að allir í þessum flokkum séu tilbúnir að standa undir þeirri ábyrgð að taka þátt í því að mynda ríkisstjórn. Maður upplifir vilja til þess að láta það gerast og gera málamiðlanir,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. 

Frétt mbl.is: Samþykkja formlegar viðræður 

Vinstri-græn, Björt framtíð, Pírat­ar, Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafa ákveðið að hefja form­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður eftir fundarhöld síðustu tvo daga. Næstu dagar fara í sértækt málefnastarf. 

„Við verðum að tala við okkar fólk, hver flokkur í sínu lagi, og á morgun ætlum við að setjast yfir málefnin. Þetta getur verið flókið með svo marga við borðið þannig að við skiptum þessu upp,“ sagði Óttarr í samtali við mbl.is. Hann sagði að enginn fastur tímarammi væri fyrir viðræðurnar en flokkarnir gefi sér ekki endalausan tíma. 

„Það er ekki búið að negla það niður en framan af þá gefum við okkur ekki óendanlegan tíma. Þetta verður fram í vikuna, kannski fram eftir helgi eða svo til að sjá hvort þetta geti gengið upp.“

Samfylkingin verði tannhjól í umbótastjórn

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir það ljóst að þegar fimm flokkar koma saman í stjórnarmyndunarviðræðum séu snertifletirnir nokkrir og því ljóst að ræða þurfi ýmsa hluti. „En ég get ekki séð að það verði óleysanlegt,“ segir Logi um verkefnið sem bíður flokkanna.

Spurður hvort þjóðin hafi kallað eftir því að Samfylkingin yrði aðili að ríkisstjórnarsamstarfi eftir slæmu úrslitin í kosningunum, sem leiddu til þess að Oddný G. Harðardóttir sagði af sér sem formaður, segir Logi flokkinn telja sig eiga heima við þetta borð. „Við getum verið tannhjól í þessari umbótastjórn. Það skiptir máli og þannig nálgumst við þetta,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert