Katrín skilar umboðinu

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Ófeigur

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur skilað stjórnarmyndunarumboðinu til forseta Íslands. Það gerði hún á fundi með honum í morgun.

„Ég ákvað það í gær að henda inn handklæðinu,“ sagði Katrín við blaðamenn á Bessastöðum eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Katrín átti fund með þingflokki sínum í morgun og greindi þar frá því að hún myndi skila inn umboðinu. „Ég fékk stuðning við þá ákvörðun.“

Katrín sagði aðspurð að staðan væri snúin en vildi ekki tjá sig um það hver næstu skref ættu að verða. Það væri í höndum forsetans. Staðan kallaði hins vegar á það að hennar mati að flokkarnir færu hver og einn yfir stöðuna. Hugsa þyrfti út fyrir kassann.

Katrín sagðist hafa notað daginn í gær til þess að fara yfir aðra valkosti en það hefði ekki orðið til þess að hún teldi ástæðu til þess að láta reyna á aðrar stjórnarmyndunarviðræður. 

Spurð hvort hún hefði rætt við þingflokk VG um þann möguleika að nálgast Sjálfstæðisflokkinn sagði Katrín að það hefði ekki verið rætt sérstaklega heldur hefði hún gert þingmönnum sínum almenna grein fyrir stöðunni.

„Gagnvart bara fólkinu í landinu, og þá mínum kjósendum og stuðningsmönnum, þá held ég að það sé alveg ljóst að staða okkar allra er að þrengjast,“ sagði Katrín. Flokkarnir þyrftu að fara með afgerandi hætti yfir það hvað þeir vildu gera og vildu sjá.

Útilokar ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn

Stjórnmálaflokkarnir þyrftu fyrir vikið að ræða það upp á nýtt innan sinna raða hvort þeir væru reiðubúnir að slaka á sínum kröfum til þess að hægt væri að mynda stjórn.

Spurð áfram hvort staða yki líkurnar á að VG og Sjálfstæðisflokkurinn næðu saman með þriðja flokki sagði Katrín málefnalega sem fyrr langt á milli flokkanna en hún útilokaði hins vegar ekkert í stöðunni.

„Mér finnst of snemmt að segja til um það,“ sagði Katrín. Spurð um mögulega þjóðstjórn eða minnihlutastjórn sagði Katrín að sama skapi ekki hælgt að útiloka neitt. Eðlilegt væri fyrst hafi verið reynt að mynda meirihlutastjórn en þetta væri allt eitthvað sem flokkarnir þyrftu að ræða.

Forseti Íslands mun skýra frá næstu skrefum á blaðamannafundi klukkan 11:00.

Katrín vildi reyna ríkisstjórnarsamstarf fimm flokka; VG, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Bjartrar framtíðar. Þeim viðræðum var slitið á miðvikudag.

Katrín Jakobsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fund sinn með forsetanum.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fund sinn með forsetanum. mbl.is/Ófeigur
mbl.is

Bloggað um fréttina