Hyggjast taka á móti fleiri flóttamönnum

Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar.
Ótt­arr Proppé, Bjarni Bene­dikts­son og Bene­dikt Jó­hannes­son for­ystu­menn nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. mbl.is/Eggert

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar stefnir að því að taka á móti fleiri flóttamönnum en áður. Kemur það fram í stjórnarsáttmála flokkanna þriggja sem undirritaður var í dag.

Kemur þar fram að í fjölmenningarsamfélagi felist mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

„Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana. Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.

Einnig skuli einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta beri menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.

mbl.is