„Við höldum okkar striki“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hyggst gefa áfram kost á sér ...
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hyggst gefa áfram kost á sér til formennsku í flokknum á landsfundi sem fram fer 6.-8. október næstkomandi. mbl.is/Eggert

 „Við teljum að við höfum skýra málefnastöðu sem er mótvægi við stefnu fráfarandi ríkisstjórnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Opinn fundur félagsmanna Vinstri grænna fór fram í Reykjavík í gærkvöldi. Þar fór Katrín meðal annars yfir þá stöðu  sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum eftir stjórnarslitin síðastliðinn föstudag. „Við teljum að sú ríkisstjórn sem nú er að fara frá hafi ekki verið að koma til móts við venjulegt fólk í þessu landi, bæði hvað varðar skattastefnu, heilbrigðismál og menntamál.“

Að mati Katrínar snerust kosningarnar fyrir ári  að miklu leyti um uppbyggingu á innviðum, það er heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, sem og að bæta stöðu aldraðra og öryrkja. „En við erum með það svart á hvítu í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar að það hefur ekki verið ætlunin að sækja fram á þessum sviðum.“

Á fundi flokksins í gær fóru einnig fram kosningar á landsfundarfulltrúum. Landsfundur Vinstri grænna fer fram 6.-8. október og engin breyting verður þar á, þrátt fyrir kosningar hinn 28. október næstkomandi. „Við höldum okkar striki. Við erum búin að undirbúa fundinn málefnalega, öll gögn liggja fyrir. Við höldum okkar landsfund og notum hann sem upphaf okkar kosningabaráttu,“ segir Katrín.

Gefur áfram kost á sér til formennsku

Ný stjórn verður kjörin á landsfundinum. „Ég hyggst gefa kost á mér og fagna því ef ég fæ mótframboð en ég hef svo sem ekki heyrt af því,“ segir Katrín. Frestur til að skila inn framboði til stjórnar rennur út að kvöldi 6. október, sama dag og landsfundurinn hefst.  

Björn Val­ur Gísla­son, nú­ver­andi vara­formaður VG, hef­ur til­kynnt að hann sæk­ist ekki eft­ir end­ur­kjöri. Tvö framboð hafa borist til embættis varaformanns, annars vegar frá Edward H. Huijbens, formanni kjördæmisráðs VG, og hins vegar frá Óla Halldórssyni, sveitarstjórnarmanni í Norðurþingi, og forstöðumanni Þekkingarnets Þingeyinga.

Björn Valur Gíslason mun ekki sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður ...
Björn Valur Gíslason mun ekki sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Uppstilling líklegur valkostur

Flokkurinn mun funda aftur á fimmtudag þar sem ákveðið verður hvort stillt verði upp á lista fyrir komandi kosningar eða hvort forval verði fyrir valinu. Björg Eva Er­lends­dótt­ir, framkvæmda­stjóri VG, sagði í viðtali við mbl.is á laugardag að líklega yrði upp­still­ing fyrir valinu þar sem lít­ill tími gæf­ist til for­vals.

Katrín ætlar ekki að skipta sér af hvernig valið verður á lista og segir ákvörðunina vera alfarið í höndum kjördæmisráða. „En það liggur fyrir að það er stutt síðan það var kosið síðast og tíminn núna er skammur. Það mun væntanlega hafa einhver áhrif á hvaða ákvarðanir verða teknar, en það er ákvörðun kördæmisráðs í hverju kjördæmi sem ræður.“

Frá 5% fylgi til 30%

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Frétta­blaðsins, Stöðvar 2 og Vís­is sem gerð var í gær eru Vinstri græn með 23 prósent fylgi, jafn mikið og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn. Katrín segir að hún sé orðin ýmsu vön þegar kemur að skoðanakönnunum á þeim tíma sem hún hefur verið í stjórnmálum. „Frá því að ég varð formaður í þessum flokki hafa skoðanakannanir sveiflast á milli 5 prósenta og 30 prósenta, þannig ég geri nú ekki of mikið með þær, satt best að segja.“

Frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs árið 2013.
Frá landsfundi Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs árið 2013. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina