Reyndu að mynda minnihlutastjórn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sagði við fjölmiðla á föstudaginn eftir að þetta allt gerðist að ég teldi ábyrgt að kanna aðrar leiðir til þess að mynda ríkisstjórn og ég lét á það reyna. Það kom hugsanlega til greina einhvers konar minnihlutastjórn sem hefði þá þurft á hlutleysi fleiri flokka að halda til þess að verja hana falli. Það reyndist hins vegar ekki vera hægt að tryggja það.“

„Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is spurður út í deilur á milli einkum Pírata og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um það hvort hægt hefði verið að mynda fimm flokka ríkisstjórn eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar féll. Sigurður segir að hægt hefði verið að mynda minnihlutastjórn en hins vegar hafi ekki verið vilji til þess að verja hana.

Lagði til ríkisstjórn með VG og Samfylkingunni

Spurður hvaða hugmyndir hann haft um samsetningu slíkrar minnihlutastjórnar segir Sigurður að þar hafi hann einkum horft til stjórnar VG, Framsóknar og Samfylkingarinnar. Forystumenn VG og Samfylkingarinnar hafi verið til í að skoða það. Þetta hafi þó aðeins verið ein möguleg hugmynd. Þá hafi verið horft til þess að annað hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Viðreisn og Björt framtíð myndu veita slíkri stjórn hlutleysi til að tryggja stöðu hennar.

„Síðan gerist það að málið fer í þann farveg að forsætisráðherrann fer til forsetans og í kjölfarið er lögð fram þingrofsbeiðni, hún samþykkt og lesin upp í þinginu. Þá heyrði ég af því í gær að einhverjar þreifingar um fimm flokka stjórn sem ég fékk þó ekki skilið því það væri þá fyrst og fremst verið að tala um ríkisstjórn fyrir næstu sex vikurnar.“

Sigurður segir að fyrst ekki var vilji til þess að setja saman varanlegt stjórnarsamstarf á föstudeginum áður en þingrof lá fyrir hafi hann engan tilgang séð með fimm flokka starfsstjórn fram að kosningum sem aðallega hefði því hlutverki að gegna að halda hlutunum gangandi. Hins vegar hafi Framsóknarflokkurinn ekki verið aðili að þessum þreifingum í gær.

Skylda stjórnmálamanna að reyna að finna leiðir

„Þessar viðræður á föstudaginn voru bara könnunarviðræður. Við vorum að leita fyrir okkur hvort það væru einhverjar leiðir. Þegar þær voru ekki færar og ekki var vilji til þess að fara í þetta á grundvelli heilinda og annars sem þarf að vera fyrir hendi var ekkert annað að gera en að slá það út af borðinu og því gerðum við það sem höfðum rætt þetta.“

Sigurður segir að það sé auðvitað ábyrgð stjórnmálamanna að reyna að finna einhverjar leiðir. „Rétt eins og ég sagði á föstudaginn. Það er einfaldlega skylda okkar. En þegar það reynist ekki hægt þá er aðeins ein leið í boði og það eru kosningar. Síðan verður að vona að eitthvað komi út úr þeim sem hægt verður að vinna með. Það verður að koma í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina