Björn Ingi stofnar nýjan flokk

Björn Ingi þvertekur fyrir að vera á leið í framboð.
Björn Ingi þvertekur fyrir að vera á leið í framboð. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformaður og útgefandi Pressunnar, hefur stofnað lénið samvinnuflokkurinn.is, en þvertekur þó fyrir að vera á leið í framboð. Vísir.is greinir frá þessu. Hægt er að fletta léninu upp á isnic.is og þar sést að hann er skráður rétthafi þess.

Í samtali við Vísi segist Björn Ingi sjálfur ekki vera á leið í framboð en hann vilji hins vegar taka þátt í búa til nýtt borgaralegt afl þar sem jöfnuður, réttlæti og framfarir leiki lykilhlutverk.

„Ég er viss um að á næstunni muni öflugir aðilar ganga til liðs við okkur og stofna þennan flokk með formlegum hætti og veita honum forystu. Ég sé fyrir mér að þeir komi úr ýmsum áttum, líka fólk sem hefur hingað til ekki látið að sér kveða á hinu pólitíska sviði,“ segir Björn Ingi í samtali við Vísi.

Hann segir jafnframt að flokkurinn sé á frumstigi. Nafnið sé komið en svo ráðist framhaldið á næstu dögum.

mbl.is