Finnur fyrir stuðningi og meðbyr

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Það lá vel á Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, í Alþingishúsinu í gær. Ekki dró það úr ánægjunni að heyra að VG væri stærsti flokkurinn á þingi. „Það kemur ánægjulega á óvart að sjá þetta, en ég neita því ekki að við höfum fundið fyrir miklum stuðningi og meðbyr á undanförnum dögum,“ segir Katrín.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í þessari könnun erum við á svipuðum slóðum og við höfum verið að undanförnu. Könnunin er tekin þegar við erum í miðri hringiðu atburða undanfarinna daga. Þeir hafa smám saman verið að skýrast og nú er að renna upp fyrir fólki að það var ekkert raunverulegt tilefni til stjórnarslita. Við erum einfaldlega að safna liði og hlökkum til að fara á fund kjósenda og sækja fram,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.

Þannig myndu þingsætin dreifast miðað við skoðanamælingu Féklagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.
Þannig myndu þingsætin dreifast miðað við skoðanamælingu Féklagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.

„Það kemur mér ekki á óvart að þeir sem hafa valdið uppþoti og óróa í stjórnmálunum fá á baukinn. Mér finnst gott ef þessar kosningar geta meðal annars snúist um það hverjir láta ekki hrekjast þó þeir fái vind í fangið.“