Framsókn í Norðaustur stillir upp á lista

Þórunn Egilsdóttir stefnir sækist eftir fyrsta sæti í Norðaustur kjördæmi.
Þórunn Egilsdóttir stefnir sækist eftir fyrsta sæti í Norðaustur kjördæmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi höfnuðu rétt í þessu tillögu stjórnar um að velja frambjóðendur á lista með tvöföldu kjördæmisþingi, líkt og gert verður í Norðvesturkjördæmi, að fram kemur á vef RÚV. Ákveðið var að stilla frekar upp á lista.

Rökstuðningurinn var meðal annars sá að of lítill tími gæfist til að halda tvöfalt kjördæmisþing og að aðstæður hefðu breyst frá því stjórnin ákvað að leggja fram tillöguna. Er þar átt við skyndilegt brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr flokknum.

Búist var við oddvitaslag í kjördæminu þar sem bæði Sigmundur Davíð, fyrrverandi formaður flokksins, og Þórunn Egilsdóttir þingflokksformaður höfðu gefið út að þau ætluðu að sækjast eftir fyrsta sætinu. Á því varð hins vegar breyting í morgun þegar Sigmundur greindi frá því á heimasíðu sinni að hann væri hættur í flokknum og ætlaði að vinna að myndun nýs stjórnmálaafls.

mbl.is