Fleiri úrsagnir úr Framsókn

Formaður Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis, Regína Helgadóttir, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum í kjölfar ákvörðunar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns flokksins, að gera það sama í gær. Fréttir hafa borist af fleiri úrsögnum trúnaðarmanna úr Framsóknarflokknum á ýmsum stöðum á landinu í kjölfar ákvörðunar Sigmundar.

„Nú er það ljóst að öflugasti stjórnmálamaður Íslands hefur yfirgefið Framsóknarflokkinn þar sem vegið hefur verið að honum og dáist ég að því hvað hann hefur lengi þraukað þetta. Ég tilkynni að ég segi hér með af mér formennsku fyrir Framsóknarfélag Akureyrar og nágrennis, jafnframt mun ég ganga úr Framsóknarflokknum. Ég mun í framhaldinu styðja Sigmund Davíð til allra góðra verka og er til í að leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu allri,“ segir Regína í tilkynningu til fjölmiðla.

Gunnar Sigbjörnsson, fyrrverandi formaður Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi, hefur einnig sagt sig úr Framsóknarflokknum. Sama á við um Hólmfríði Þórisdóttur, fyrrverandi jafnréttisfulltrúa Framsóknarflokksins og fyrrverandi formann Félags Framsóknarkvenna í Garðabær og Hafnarfirði. Áður hafa ýmsir trúnaðarmenn bæði á höfðuborgarsvæðinu og í Norðausturkjördæmi tilkynnt úrsagnir úr Framsóknarflokknum.

mbl.is