Framsókn gefur ekki upp fjölda úrsagna

mbl.is/Styrmir Kári

Framsóknarflokkurinn hyggst ekki gefa upp hversu margir hafa sagt sig úr flokknum í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, tilkynnti úrsögn úr honum í gær. Þetta segir Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. Hann segir að öðrum fjölmiðlum hafi verið tilkynnt það sama.

Nokkur hópur trúnaðarmanna Framsóknarflokksins hefur sagt sig úr flokknum og tilkynnt fjölmiðlum það síðan Sigmundur Davíð tilkynnti úrsögn sína í gær. Bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Ekki er hins vegar vitað hversu margir aðrir kunna að hafa sagt sig úr flokknum án þess að hafa haft  samband við fjölmiðla vegna þess.

Hins vegar verða þær upplýsingar ekki veittar að sögn skrifstofu Framsóknarflokksins sem fyrr segir. Tekin hafi verið ákvörðun um það vegna fyrirspurna fjölmiðla.

mbl.is