Gríðarleg eftirsjá að Sigmundi

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gríðarleg eftirsjá að Sigmundi Davíð fyrir Framsóknarflokkinn. En á sama tíma held ég að það sé í sjálfu sér gott fyrir Ísland að hann sé ekki hættur í stjórnmálum.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, að yfirgefa flokkinn. Sigmundur tilkynnti ákvörðun sína á heimasíðu sinni í gær.

Frétt mbl.is: Sigmundur Davíð hættir í Framsókn

Sigmundur rakti átökin innan Framsóknarflokksins til þessa og sagði sex tilraunir hafa verið gerðar til þess að reyna að koma honum frá sem formanni flokksins og síðan sem þingmanni hans. Sigmundur hyggst stofna nýjan stjórnmálaflokk og bjóða fram við þingkosningarnar sem fram fara 28. október. Spurður um stöðuna hjá honum segir Gunnar Bragi:

„Ég er að fara að hitta mitt fólk á næstu dögum og fara yfir stöðuna. Eins og staðan er í dag þá stefni ég ekkert á annað en að taka slaginn um fyrsta sætið og ég kvíði því ekki ef allt er uppi á borðum, þá þekkir fólk muninn á mér og Ásmundi Einari. Þannig að ég kvíði því ekki neitt.“ Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur tilkynnt mótframboð gegn Gunnari Braga í Norðvesturkjördæmi þar sem Gunnar er oddviti.

Valið verður á lista Framnsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer 8. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert