Ragnar Stefán hættur í Framsókn

Ragnar Stefán Rögnvaldsson.
Ragnar Stefán Rögnvaldsson. Af blogvef Ragnars

Ragnar Stefán Rögnvaldsson, formaður Ungra framsóknarmanna í Reykjavík, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum.

„Ég gekk í Framsóknarflokkinn árið 2009 því ég vildi sjá breytingar. Breytingar sem ég sá að ný forysta Framsóknarflokksins var reiðubúin til að hrinda í framkvæmd í nánu samstarfi við grasrót flokksins. Gömlu valdaklíkurnar höfðu tapað yfirráðum í flokknum.

Ný og fersk sveit manna og kvenna, ásamt gömlum félögum, vildi sjá breytingar, ekki bara í Framsóknarflokknum heldur í samfélaginu öllu. Á meðan grasrótin vann gríðarlega gott starf í innra starfi flokksins vöknuðu gömlu valdhafarnir við vondan draum og sáu sér til skelfingar að þeir höfðu misst tökin á flokknum.

Voru því bakherbergin til sjávar og sveita fyllt af reyk og í flýti hafist handa við að endurheimta Framsóknarflokkinn til gömlu valdamannanna og flokksgæðinga. Það virðist vera að takast, því núsitjandi formaður, ásamt hans nánustu samverkamönnum, þ.e.a.s. þingmönnum sem skipað hafa annað sætið á lista Framsóknar í landsbyggðarkjördæmunum, langar ekki, eða hafa ekki getu til að bera klæði á vopnin né heldur skapa sátt.

Það sést best á kaldhæðnislegum yfirlýsingum sumra þeirra á samfélagsmiðlum þar sem engin sátt virðist í sjónmáli eða hvað þá sáttarvilji. Af þessu leiðir að starfi mínu í flokknum er sjálfhætt, ég segi því af mér sem formaður Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík og læt einnig af öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn,“ segir í tilkynningu frá Ragnari Stefáni.

mbl.is