„Erum sterkust þegar við stöndum saman“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, segir á Facebook-síðu sinni að atburðarás síðustu daga hafi valdið umróti innan flokksins sem leitt hafi til þess að gott fólk hafi kosið að yfirgefa hann. Vísar hann til þeirrar ákvörðunar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forvera Sigurðar Inga, að segja skilið við Framsóknarflokkinn. Sigurður þakkar þeim sem fylgt hafa Sigmundi störf þeirra í þágu Framsóknarflokksins og óskar þeim alls hins besta. 

„Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir. Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans.“

Sigurður Ingi segir að vissulega hafi komið upp mál sem ekki væri sátt um innan Framsóknarflokksins í 100 ára sögu hans. Þar hafi hins vegar tekist á málefnalegan hátt að komast að lýðræðislegri niðurstöðu. „Við greiðum atkvæði og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu sem og í flokknum okkar. Framsóknarfólk hefur á undanförnum árum unnið saman að brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar og náð árangri með sannfæringu, krafti og samstöðu að leiðarljósi.“

Formaðurinn segir að þingflokkur Framsóknarmanna hafi áunnið sér straust og sé eftirsóttur til samstarfs. „Staða Framsóknarflokksins er sterk og mikilvægt að við göngum sameinuð til kosninga. Við höfum skyldum að gegna. Of mörg mál hafa legið í láginni hjá síðustu ríkisstjórn sem þola enga bið. Það er okkar að hlúa að þeim sem minna eiga og byggja upp nauðsynlega innviði í velferðarkerfinu. Kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum.“

Sigurður segist vilja starfa með stjórnmálaflokkum sem „vilja öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og samgöngur. Bæta kjör þeirra sem lakast standa m.a. aldraðra, öryrkja og barna. Endurbæta skattkerfið til að létta skattbyrði hjá fólki með millitekjur og lægri tekjur en hækka á hátekjur“. Þörf sé á öflugum Framsóknarflokki í næstu þingkosningum, segir Sigurður. „Við erum sterkust þegar við stöndum saman. Höldum því áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert