„Ung var ég gefin Njáli“

Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins.
Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er ungur maður og leiðtogi sem við litum mjög upp til og okkur þótti gaman að því að fylgja. Hann var staðfastur í trú sinni og við fylgdum honum. Við erum mjög stolt af þeim verkum sem við unnum og stolt af staðfestu hans.“

Þetta segir Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, um ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns flokksins, sem ákveðið hefur að segja skilið við hann og stofna nýja stjórnmálahreyfingu. Nokkuð hefur verið um úrsagnir úr Framsóknarflokknum í kjölfarið.

Spurð hvort hún sé á leið úr Framsóknarflokknum segir Sigrún: „Nei, nei, nei, nei, ung var ég gefin Njáli eins og þar segir. Ég er eldheit framsóknarkona og hætti því ekki.“ Sigrún segir að enginn geti fengið hana til þess að tala illa um Sigmund Davíð, hann hafi reynst Íslandi, Framsóknarflokknum og henni sjálfri vel.

Hins vegar hafi allir sína galla og það sem helst megi finna að Sigmundi sé að hann mætti eiga meiri samvinnu við aðra. „Það er eitthvað sem mér finnst að eigi að fyrirfinnast ríkulega í félagshyggjuflokki. Fyrir mér er Framsóknarflokkurinn svolítið eins og fjölskylda. Maður er kannski ekki alltaf sáttur við það sem hver fjölskyldumeðlimur gerir en maður yfirgefur fjölskylduna ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert