Ræður ekki förinni í þinginu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Golli

„Ég mótmæli því harðlega að því sé beint gegn mér að niðurstaðan hafi ráðist af hótunum, af tuddaskap, af einhvers konar tilraunum til að nota fólk í viðkvæmri stöðu, hælisleitendur eða aðra, sem skiptimynt við þinglok. Ég vísa öllum þessum ummælum til föðurhúsanna.“

þetta sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag um það hvort setja ætti á dagskrá þingsins frumvarp Pírata og Samfylkingarinnar um breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem gert yrði ráð fyrir samþykki einfalds meirihluta þingmanna og þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í neinni stöðu til þess að ráða för í þinginu. Við erum bara þingflokkur eins og aðrir þingflokkar hér. Við styðjum þá dagskrá sem hér er niðurstaða af samtali allra flokka. Allar þessar ásakanir eru rakalausar árásir í aðdraganda kosninga sem hefði í raun og veru ekki verið góður upptaktur fyrir marga þingfundi á Alþingi næstu daga.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafði þá sakað Bjarna um tuddaskap þegar ákveðið hafi verið hvaða mál skyldi setja á dagskrá þingsins í dag. Bjarni hafði einnig verið sakaður um að hafa hótað málþófi ef frumvarpið um breytingar á stjórnarskránni yrði tekið á dagskrá. Tillaga Pírata var að lokum felld með 41 atkvæði gegn 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert