Tekist á um stjórnarskrármálið

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Golli

Þingfundur er hafinn á Alþingi en hann hófst klukkan 13:30. Stefnt er að því að ljúka nokkrum málum í dag, einkum er þar um að ræða breytingar á lögum um útlendinga varðandi stöðu barna í röðum hælisleitenda og afnám uppreistar æru í lögum.

Þingmenn Pírata og Samfylkingarinnar lögðu fram dagskrártillögu við upphaf þingfundarins þar sem lagt er til að sett verði á dagskrá frumvarp þingmanna flokkanna um að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um það með hvaða hætti henni er breytt.

Mikil umræða skapaðist um atkvæðagreiðsluna um dagskrártillöguna og hafa þingmenn Pírata og Samfylkingarinnar verið þar áberandi. Þingmenn úr röðum annarra flokka hafa lagt áherslu á að ekki sé tími til þess að fara í þá vinnu sem nauðsynleg sé.

Einnig voru gerðar athugasemdir við að engir þröskuldar væru í frumvarpinu um kosningaþátttöku og aukinn meirihluta á Alþingi. Þá var bent á að samkomulag væri um það að afgreiða ákveðin mál fyrir þinglok og æskilegt væri að gera það í stað þess að setja samkomulagið og þau mál sem til stendur að afgreiða í uppnámi.

Uppfært 14:16: Dagskrártillagan var felld með 41 atkvæði gegn 13. Fimm voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna. Þingmenn Pírata og Samfylkingarinnar stuttu tillöguna, þingmenn Viðreisnar sátu hjá en þingmenn annarra flokka greiddu atkvæði gegn henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert