Formaður Framsóknarkvenna hættir

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir.

Formaður Landssambands Framsóknarkvenna, Anna Kolbrún Árnadóttir, hefur sagt sig frá öllum trúnaðarstörfum innan Framsóknarflokksins. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún gagnrýnir harðlega hvernig haldið hafi verið á málum innan flokksins frá því á flokksþinginu sem fram fór fyrir tæpu ári síðan þegar Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem flokksformaður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Anna Kolbrún hefur meðal annars verið jafnréttisfulltrúi Framsóknarflokksins, setið í skipulagsnefnd flokksins, miðstjórn og í landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna. Hún hefur að auki mjög virk í almennu starfi flokksins á Akureyri, setið flokksþing, miðstjórnarfundi og kjördæmisþing undanfarinn áratug.

„Frá árinu 2009 hefur farið fram mikil umbótavinna er varðar grunnstoðir flokksins, s.s. lög, framboðsreglur og jafnréttisáætlun. Það var gert til að bæta vinnubrögð og auka gegnsæi þannig að allir sætu við sama borð. Ég tók þátt í þeirri vinnu af mikilli samviskusemi og stolti. Nú er þetta að engu haft,“ segir Anna Kolbrún ennfremur.

Rangar ákvarðanir hafi verið teknar undanfarið ár. „Sem lítið en skýrt dæmi má nefna að í hátíðarútgáfu Tímans, sem gefin var út í tilefni 100 ára afmælis flokksins, var varla minnst einu orði á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, eins og ætlunin hafi verið að reyna að gleyma öllu því góða sem hann hefur unnið fyrir flokkinn og fólkið í landinu. Að við ættum bara að gleyma manninum Sigmundi Davíð.“

Sigmundur hafi nú stigið skrefið til fulls og yfirgefið flokkinn og „tekið skrefið sem ákveðnir aðilar innan flokksins hömuðust við að fá hann til að taka, ryðja honum úr vegi. [...] Ég hef alltaf talið mig til grasrótar Framsóknarflokksins. Ég hef ekki orðið vör við sáttarumleitanir að hálfu núverandi formanns flokksins eftir atburði undangenginna mánaða, gleymdist kannski að tala við grasrótina – þannig týndist tíminn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina