Hvaða áhrif hafa útlendingalögin á Haniye og Mary?

Þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára eiga nú …
Þær Mary 8 ára og Haniye 11 ára eiga nú góða möguleika á því að fá að vera áfram hér landi. Samsett mynd

Breytingar á útlendingalögum sem samþykktar voru á Alþingi í gær koma hugsanlega til með að hafa áhrif á tuga barna hér á landi og fjölskyldur þeirra, sem hafa dvalið hér í ákveðinn tíma, en ekki fengið úrlausn sinna mála. Breytingarnar hafa einnig áhrif á þau börn sem nú þegar hafa fengið synjun um hæli en ekki er búið að flytja úr landi. 

Starfsfólk Rauða krossins vinnur nú hörðum höndum að því að taka saman fólkið sem um ræðir og hafa samband við það. Tveggja vikna frestur er veittur frá gildistöku laganna til að fara fram á endurupptöku á málum.

Vinnu við frumvarpið sem samþykkt var í gær og er nú orðið að lögum, var hrundið af stað í kjölfar þess að tveimur ungum stúlkum, hinni 11 ára gömlu Haniye og 8 ára gömlu Mary, var synjað um hæli hér á landi. Vakti það mikla reiði samfélaginu.

Stúlkurnar hafa verið á flótta allt sitt líf og finna í fyrsta skipti fyrir öryggi hér á landi. Til stóð að senda Haniye, og fatlaðan föður hennar, til Þýskalands þaðan sem þau komu til Íslands. Haniye er sjálf ríkisfangslaus, enda fæddist hún á flótta, en faðir hennar er Afganskur. Senda átti þau til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Mary hefur dvalið hér á landi ásamt foreldrum sínum, en til stóð að senda þau aftur til heimalandsins, Nígeru. Móðir Mary var fórnarlamb mansals á Ítalíu, þar sem þau dvöldu áður en þau komu hingað, en faðir hennar flúði pólitískar ofsóknir í Nígeríu.

Allar líkur á því að stúlkurnar fái að vera hér áfram

Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum segir breytingar á lögunum koma til með að hafa áhrif á í hvaða farveg mál stúlknanna fara. „Mál Haniye hefur verið í Dublinarferli, sem þýðir að íslensk stjórnvöld hafa skoðað mál þeirra feðgina með tilliti til þess hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að senda þau til Þýskalands, þar sem þau hafa verið áður,“ útskýrir hún.

„Samkvæmt þessum lögum verður mál þeirra tekið til efnismeðferðar, sem þýðir að íslensk stjórnvöld munu skoða aðstæður þeirra í heimalandinu,“ segir Guðríður, en það er vegna þess að feðginin hafa dvalið hér á landi lengur en í 9 mánuði. Með breytingunum á lögunum, sem samþykktar voru í gær til bráðabirgða, var frestur sem stjórnvöldum er gefinn til að vinna úr umsókn barns um hæli, áður en þau skulu taka hana til efnislegrar meðferðar, styttur úr 12 mánuðum í 9.

Guðríður telur allar líkur á því að feðginunum verði svo veitt hæli í kjölfarið. „Fólk frá Afganistan fær vernd hér á Íslandi enn sem komið er. Það eru algjörlega yfirgnæfandi líkur á því að þau fái vernd. Það yrði allavega mjög furðulegt ef fyrstu Afganarnir sem fengju synjun á hælisumsókn væru fatlaður maður og ung dóttir hans.

Hin breytingin, að stytta frest til veita barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarasjónarmiða úr 18 mánuðum í 15 mánuði, kemur sér til góða fyrir Mary og fjölskyldu hennar, enda hafa þau dvalið hér á landi lengur en í 15 mánuði. Þau geta nú sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Slíkt leyfi er veitt til eins árs, en er endurnýjanlegt til tveggja ára. „Þetta er í raun lakara leyfi. Fyrir utan að það gildir í styttri tíma, þá fylgir því ekki atvinnuleyfi. Það þarf að sækja um það sérstaklega. Það fá flestir endurnýjað mannúðarleyfið ef það kemur ekki eitthvað stórkostlegt upp á.“ Einstaklingar sem hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum geta svo, þegar fram í sækir, fengið búsetuleyfi hér á landi.

Sækja þarf um endurupptöku málanna innan tveggja vikna, líkt og fram hefur komið, og svo hefur kærunefnd útlendingamála þrjár vikur til að svara beiðninni. „Ef þessar tvær stúlkur fá jákvætt svar við endurupptökubeiðninni þá fara mál þeirra í þennan farveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert