Fagnar því að kjósendur velti málum fyrir sér

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn eiga …
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn eiga mikið inni. mbl.is/Eggert

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir könnun MMR endurspegla þá miklu hreyfingu sem sé á fylgi milli stjórnmálaflokka. Samkvæmt könnuninni sem gerð var dagana 26.-28. sept­em­ber, er Vinstri hreyf­ing­in – grænt fram­boð stærsti flokkurinn með 24,7% fylgi, en Sjálf­stæðis­flokk­inn með 23,5%.

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir Viðreisn og Björt framtíð ná ekki 5% mark­inu samkvæmt MMR könn­un, sem mælir fylgi Viðreisn­ar 4,9% og Bjartr­ar framtíðar 2,5%.

Fylgi við Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son er 7,3% samkvæmt könnuninni, en Fram­sókn­ar­flokk­urin er með 6,4% fylgi, Sam­fylk­ing­in og Pírat­ar með um 10% fylgi hvor flokk­ur og Flokk­ur fólks­ins með 8,5% fylgi.

„Mín viðbrögð við könnuninni almennt er að hún endurspeglar þessa miklu hreyfingu sem er á fylgi milli flokka,“ segir Óttarr. „Kjósendur virðast vera svolítið óöruggir með sig og það er í sjálfu sér kannski ekki skrýtið miðað við óvenjulegar aðstæður.“

Hefur trú á að flokkurinn eigi meira inni

Björt framtíð hafi engu að síður fulla trú á að flokkurinn eigi mun meira inni. „Við erum auðvitað bara rétt að komast inn í kosningabaráttu þar sem að aðrir nýir flokkar og innanflokkaátök í öðrum flokkum hafa átt athyglina að miklu leyti undanfarna daga.“

Nokkrar gagnrýnisraddir hafa heyrst sem segja Bjarta framtíð hafa ætlað að bæta vinsældir sínar með stjórnarslitunum. Óttarr segir slíkar raddir ekki háværar. „Við heyrum miklu meira frá fólki sem hefur fullan skilning á að við slitum stjórnarsamstarfinu með ríkri ástæðu vegna trúnaðarbrests. Við gengum inn í þetta stjórnarsamstarf til að axla ábyrgð, en ekki til þess að afla okkur vinsælda og það sama má segja um okkar ákvörðun að slíta því. Þannig að ég vil meina að þessar kaldhæðnisraddir séu hvorki ráðandi né yfirgnæfandi.“

Sóknarfæri felast í breytingunum

Óttarr segir Bjarta framtíð vera nýlegan flokk sem stofnaður hafi verið inn í breytingar í íslenskri pólitík „Það er alveg ljóst að það eru miklar breytingar og væringar í íslenskri pólitík og það er auðvitað sóknarfæri fyrir þá sem vilja bæta hana. Þannig að það er full ástæða til að fagna því að hlutir séu á hreyfingu og að kjósendur séu að velta málunum alvarlega fyrir sér.“

Hann segir uppröðun á lista Bjartrar framtíðar enn fremur ganga ágætlega. Samkvæmt lögum flokksins sé það hlutverk uppstillinganefndar að gera tillögur að uppröðun á lista í samráði við flokksmenn um land allt, enda sé leitast við að stilla upp listum sem hvað mest sátt sé um. „Hún er að störfum á fullu og síðan verða tillögur hennar lagðar fyrir stjórn og ég geri ráð fyrir að það gerist á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert