Flokkur fólksins með 10,1% í nýjum þjóðarpúlsi

Inga Sæland er formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Fylgi Vinstri grænna mælist mest allra flokka og er flokkurinn með 25,4% fylgi samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups sem Rúv greinir frá. Var hann framkvæmdur dagana 15. til 28. september. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næststærstur með 23,1% og Píratar með 10,3%.

Flokkur fólksins er hástökkvari í könnuninni og mælist með 10,1%. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,9% og Samfylkingin 9,3%. Björt framtíð fær 4,6% og Viðreisn 3,6%, en það dugar hvorugum flokknum til þess að ná manni á þing.

Fylgi annarra flokka mælist samtals 3,7%, en þar af mælist Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar með 2% og Dögun með 1%. Þó ber að geta þess að ekki var tilkynnt um framboð Sigmundar fyrr en undir lok könnunartímabilsins, eða 24. september.

Þjóðarpúls Gallups er netkönnun og voru 4.092 í heildarúrtaki. Þátttökuhlutfallið var 60%.

Fyrr í dag birti mbl.is niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar. Hægt er að sjá niðurstöður hennar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert