Spáir VG, Pírötum og Samfylkingu í stjórn

Össur telur að þriggja flokka stjórn VG, Pírata og Samfylkingar …
Össur telur að þriggja flokka stjórn VG, Pírata og Samfylkingar sé líklegasta útkoman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar, spáir því að mynduð verði þriggja flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingar, að loknum kosningum. Hann telur nánast útilokað að tveggja flokka stjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins verði mynduð.

Össur skrifar langa færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann spáir í spilin varðandi næsta ríkisstjórnarsamstarf. Hann líkir Katrínu Jakobsdóttur við ballerínu sem hafi dregið fram ballettskóna og dansað fimlega síðustu viku.

„Sérstaklega hefur hún afgreitt Sjálfstæðisflokkinn fumlaust – en hiklaust. Hún lokar ekki á neinn en þylur svo upp stefnumál sem Bjarni Ben – eða hver sem verður við stjórnvöl Sjálfstæðisflokksins – munu aldrei geta samþykkt. Hún var líka fljót að kveða vinstristjórnarskattagrýlu Sjálfstæðisflokksins í kútinn með því að lýsa yfir að ríkisstjórn undir hennar forystu myndi ekki hækka skatta. Það er meira en Barni getur státað af. Hann setti Íslandsmet þegar hann hækkaði tekjuskatt á einn hóp – hina allra lægst launuðu,“ skrifar Össur.

Össur Skarphéðinsson spáir í spilin.
Össur Skarphéðinsson spáir í spilin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir Katrínu síst af öllu langa í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og að baklandið myndi aldrei leyfa henni það. „Jafnvel mjög langvinn og djúp stjórnarkreppa myndi varla opna á slíka ríkisstjórn nema þá með gerbreyttri forystu Sjálfstæðisflokksins.“

„Ekkert býflugnabú þolir tvær drottningar“

Össur telur samstarf við Pírata auðveldara en áður, nú þegar Birgitta Jónsdóttir er horfin af vettvangi. „Menn velta vitaskuld fyrir sér hvort hægt sé að stóla á Pírata í ríkisstjórn með nauman meirihluta. Innan raða VG var greinilegt lengi vel að á því höfðu menn litla trú. Ekkert býflugnabú þolir tvær drottningar og það voru jafnan litlar ástir milli Katrínar og Birgittu.“

Hann segir Helga Hrafn Gunnarsson nú hafa mesta vigt innan Pírata og hvað sem hann sjálfur haldi um sig þá sé hann ekkert annað en sósíaldemókratískur pragmatisti.

„Hann er rock-solid í samvinnu, laus við allar öfgar, hefur gaman af að vera „contrarian“ í jaðarmálum og hefur sýnt að hann er óhræddur við að taka á baklandinu. VG, Samfylking og Píratar gætu mjög auðveldlega átt góða samvinnu. Mér finnst líklegt að þessir flokkar létu reyna á stjórnarmyndun jafnvel þó meirihluti yrði naumt skorinn.“

Össur segir þennan meirihluta þó geta stækkað umfram kjörfylgi fari svo að Viðreisn og Björt framtíð nái ekki inn á þing. Hann bendir á að þeim möguleika hafi verið velt upp að Framsókn yrði kölluð til liðs við flokkana þrjá, en telur hann þó fjarlægan, enda bendi allt til að hamfarir bíði Framsóknar í komandi kosningum og flokkurinn tapi miklu fylgi.

„Ballerínan sem nú tiplar um sviðið þarf mjög að vanda sig. Hún hefur þegar misst af þremur frumsýningum. Fullreynt er í fjórða sinn,“ skrifar Össur í lok færslunnar og vísar þar til Katrínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert