Birgitta segist ekki sækjast eftir ráðherrastól

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef einhver vill að ég verði ráðherra mun ég auðvitað hugsa málið en ég er samt ekki að sækjast eftir því,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Birgitta býður sig ekki fram í komandi alþingiskosningum. Hins vegar hefur því verið fleygt að hún gæti tekið sæti í ríkisstjórn, enda sé það stefna Pírata að sækja sér ráðherra út fyrir þingið. Þetta var til að mynda fullyrt í dálkinum Hugin og Munin í Viðskiptablaðinu í liðinni viku. Þar sagði að Birgitta hefði rætt við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri-grænna, og lýst því yfir hvaða ráðuneyti hún hefði hug á.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Birgitta að ekkert sé hæft í þessum fregnum.