Segir ummæli Bjarna kolröng

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Hanna

Blaðamaður The Guardian segir það af og frá að umfjöllunin sem breska dagblaðið vann í samstarfi við Stundina og Reykjavík Media um að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi selt eignir í Sjóði 9 rétt fyrir hrun og hafi haft innherjaupplýsingar úr Glitni, hafi verið gerð til að koma höggi á hann og Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninga.

Þvert á móti hafi umfjölluninni verið flýtt til að hún hefði minni áhrif á kosningarnar.

Þetta kemur fram í bréfi Jon Henley, blaðamanns The Guardian, til mbl.is.

Í samtali við mbl.is sagði Bjarni augljóst að tilgangurinn með umfjölluninni hafi verið að koma höggi á sig og flokkinn. „Auðvitað hafði maður áhyggjur í upphafi þessarar kosningabaráttu að menn færu niður á þetta plan. Ég fæ þau tíðindi frá þeim erlenda blaðamanni sem hafði samband við mig að menn hafi legið á þessum gögnum í nokkrar vikur og eru að koma með þau í dag. Það eru tilviljanir í þessu,“ sagði hann.

„Út í hött“

„Ég vil að það sé á hreinu að þetta er algjörlega rangt. Í fyrsta lagi er það augljóslega út í hött að gefa það í skyn að The Guardian hafi einhverra pólitískra hagsmuna að gæta í íslensku kosningunum eða myndi nokkurn tímann reynt að hafa áhrif á þær,“ skrifar Henley.

Hann bætir við að upplýsingarnar hafi komið til blaðsins snemma í september í stóru gagnamagni úr bankaskjölum og tölvupóstum. Hann hafði samband við íslenska starfsbræður sína 5. september og byrjuðu þeir í framhaldinu að vinna úr gögnunum.

Með upplýsingarnar út af fyrir sig

„Forsætisráðherrann gerir sér kannski ekki grein fyrir því að það er mjög tímafrekt að vinna úr þúsundum rafrænna skjala. Þegar við hófumst handa hafði ég í hyggju að birta þetta um tveimur mánuðum síðar, kannski snemma í nóvember. Okkur lá ekkert á því við höfðum upplýsingarnar út af fyrir okkur,“ greinir Henley frá.

Hinn 15. september féll ríkisstjórn Bjarna og kosningar voru boðaðar 28. október. „Það var strax augljóst að fréttin var orðin meira aðkallandi en áður. Ég vildi vinna á mjög vandaðan og nákvæman hátt úr gögnunum og þótti best ef þau yrðu birt vinnuvikuna sem hófst 16. október eða jafnvel vikuna á eftir,“ segir hann.  

Vildu ekki birta rétt fyrir kosningar

„En starfsbræður mínir frá Íslandi töldu að með því að birta fréttina svo skömmu fyrir kosningar myndi það hafa óæskileg áhrif á kosningarnar; þeir vildu birta þetta eins fljótt og mögulegt var og í síðasta lagi í lok vikunnar sem hófst 2. október. Þannig að í staðinn fyrir að vilja fresta birtingu fréttarinnar þar til síðasta föstudag til að valda forsætisráðherranum og flokknum sem mestum skaða ákváðum við að flýta birtingunni um þó nokkrar vikur til draga úr skaðanum.“

„Algjörlega rangt“

Henley skrifar í lokin að augljóslega sé aldrei rétti tíminn til að birta upplýsingar sem þessar. Allar fullyrðingar um að þessi tímasetning hafi verið vandlega valin fyrirfram eða að birtingu gagnanna hafi verið frestað til að koma betur höggi á forsætisráðherrann séu algjörlega rangar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert