Verið í samskiptum við þýsk yfirvöld

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknastjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Fram kom í grein þýska fréttamiðilsins Süddeutsche Zeitung í gær að þýska alríkislögreglan hefði meðal annars miðlað upplýsingum um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, til íslenskra skattayfirvalda. Upplýsingarnar byggja á rannsóknum á Panamaskjölunum, en um er að ræða umfangsmikla samvinnu rannsakenda í Þýskalandi við rannsakendur meðal annars í Frakklandi, Bandaríkjunum og Bretlandi.

Íslenska ríkið ákvað að kaupa skattagögn fyrir 37 milljónir króna árið 2015, en umfjöllun um aflandsfélagið Wintris, sem var í eigu Sigmundar Davíðs og konu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur var unnin upp úr sömu gögnum.

Ekkert nýtt að finna gögnunum

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri staðfestir í samtali við mbl.is að gögn hafi borist frá þýskum yfirvöldum í vor eða sumar. Hún segir í raun ekkert nýtt í þeim gögnum, en fleiri gögn eigi þó hugsanlega eftir að berast, sem gætu innihaldið nýjar upplýsingar.

„Við höfum verið í samskiptum við þýsk yfirvöld um nokkra hríð vegna þess að þau keyptu þess gögn sem greint er frá í Süddeutsche Zeitung. Gögnin sem þeir hafa undir höndum eru umfangsmeiri en þau sem við keyptum. Þó eru þetta í grundvallaratriðum sömu gögn.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ýjar að því að um samsæri sé …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ýjar að því að um samsæri sé að ræða. mbl.is/Golli

Hún segir að eins og staðan sé núna sé ekkert í gögnum sem skipti máli varðandi íslenska aðila, umfram það sem íslensk skattayfirvöld hafa undir höndum. „Það er þó ekki útilokað að það kunni að verða seinna. Þá er ég að vísa til þess að þeir eru ennþá að vinna úr þessu.“

Spyr hvort líklegt sé að um tilviljun sé að ræða

Eftir að RÚV fjallaði um frétt Süddeutsche Zeitung í morgun ritaði Sigmundur Davíð færslu um málið á Facebook, þar sem hann ýjar að því að um samsæri gegn honum sé að ræða. Í færslunni spyr hann hvort það sé líklegt að um tilviljun sé að ræða að einmitt núna birtist gömul frétt um að nafnið hans hafi verið að finna í gögnum sem þýska ríkið keypti. Vert er þó að taka fram að frétt þýska fréttamiðilsins er frá því í gær.

Þá segir Sigmundur Davíð í færslu sinni íslensk skattayfirvöld ekki hafa þurft á sendingunni frá Þýskalandi að halda, enda hafi hans ríkisstjórn keypt þann hluta gagnanna sem vörðuðu Íslendinga á sínum tíma.

mbl.is