Hvaða hlutverki gegna kjörstjórnir?

Mikilvægt er að allir framboðslistar séu löglegir og er það …
Mikilvægt er að allir framboðslistar séu löglegir og er það hlutverk yfirkjörstjórnar að fara yfir þá. mbl.is/Ómar Óskarsson

Flokkar sem hyggjast bjóða fram til Alþingis í komandi kosningum, þann 28. október næstkomandi, þurfa að skila inn framboðslistum til yfirkjörstjórnar hvers kjördæmis eigi síðar en klukkan 12 á hádegi í dag, 13. október.

Kjördæmin eru sex talsins; Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Reykjavikurkjördæmi suður og norður.

Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Yfirkjörstjórnir eru kosnar af Alþingi og eru skipaðar fimm mönnum og fimm til vara. Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Við ákveðnar aðstæður getur kjörstjórnarmaður þurft að víkja sæti, til dæmis ef til úrskurðar er mál, sem varðar maka hans eða ættingja.

Misjafn fjöldi frambjóðenda og meðmælenda

Ef yfirkjörstjórn berst listi með fleiri nöfnum en tilskilið er, þá nemur hún burt af listanum öftustu nöfnin sem eru umfram tilskilda tölu. Sama gildir ef yfirkjörstjórn berst framboðslisti þar sem nafn manns stendur án þess að skriflegt leyfi hans fylgi með eða ef maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri en einum lista. Ef yfirkjörstjórn verður vör við að sami kjósandi er meðmælandi með fleiri en einu framboði, skal hún ekki telja hann meðmælanda neins þeirra.

Misjafnt er eftir kjördæmum hve margir skipa framboðslista og hve marga meðmælendur þarf með framboðinu. Fæstir skipa framboðslista í Norðvesturkjördæmi, eða 16 talsins, en þar þarf að lágmarki 240 meðmælendur með framboðinu. Flestir skipa framboðslista í Suðvesturkjördæmi, eða 26 talsins, og þar þarf að lágmarki 390 meðmælendur með framboðinu.

Daginn eftir að framboðsfrestur rennur út, eða laugardaginn 14. október, heldur yfirkjörstjórn fund og athugar hvort að einhverjir gallar eru á framkomnum framboðum. Finnist gallar er umboðsmönnum lista gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni. Ef gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á eru ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það teljast ógildur. Verði ágreiningur innan yfirkjörstjórnar ræður afl atkvæða úrslitum. Úrskurði yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til landskjörstjórnar innan sólarhrings frá því hann var kveðinn upp.

Listar auglýstir 10 dögum fyrir kjördag

Þegar ágreiningur hefur verið leystur, ef einhver er, merkja yfirkjörstjórnir framboðslista með listabókstöfum sem dómsmálráðuneytið hefur auglýst. Þegar því er lokið sendir hún listana til landskjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu.

Eftir hverjar almennar kosningar kýs Alþingi fimm manna landskjörstjórn og jafnmarga til vara. Landskjörstjórn velur sér sjálf formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Formaður landskjörstjórnar er Kristín Edwald.

Landskjörstjórn tekur listana til meðferðar og ef þörf krefur úrskurðar hún hverjum stjórnmálasamtökum skuli telja þá framboðslista sem í kjöri verða. Þá skal landskjörstjórn gæta þess að allir listar sem eiga saman séu merktir sama bókstaf í öllum kjördæmum. Að þessari athugun lokinni kunngerir landskjörstjórn framboðslistana með auglýsingu í Lögbirtingablaði, blöðum og Ríkisútvarpi 10 dögum fyrir kjördag. Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórnum listana ásamt greinargerð um afgreiðslu sína auk þess sem hún sendir dómsmálaráðuneytinu listana eins og þeir eru birtir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert