X-S er hástökkvari vikunnar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast undanfarnar tvær vikur, Vinstrihreyfingin – grænt framboð er stærsti flokkur landsins og Sjálfstæðisflokkurinn er næststærstur. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið dagana 9.-12. október.

Ef gengið yrði til kosninga núna fengi VG 27,4% atkvæða og 19 þingmenn kjörna, Sjálfstæðisflokkur fengi 22,6% og 16 þingmenn og Samfylkingin fengi 15,3% og 11 þingmenn.

Fjöldi þingmanna ef þetta verður niðurstaða kosninganna.
Fjöldi þingmanna ef þetta verður niðurstaða kosninganna. Kortadeild Morgunblaðsins

Píratar mælast með 9,2% fylgi og sex þingmenn og Flokkur fólksins með 6,5% og fjóra þingmenn. Miðflokkurinn fengi sömuleiðis fjóra þingmenn, en flokkurinn mælist með 6,4% fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 5,5% og þrjá þingmenn, fylgi Viðreisnar mælist 3,4%, sem myndi ekki skila neinum þingmanni, og Björt framtíð myndi sömuleiðis ekki ná inn manni með 2,6% fylgi. Önnur framboð, sem nefnd voru í svörunum, voru Dögun, Alþýðufylkingin og Íslenska þjóðfylkingin, sem mælast með 0,2-0,4% fylgi. Þá svöruðu 0,2% svarenda því til að þau myndu kjósa annan flokk eða lista.

Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna.
Niðurstaða skoðanakönnunar um fylgi flokkanna. Kortadeild Morgunblaðsins

Ris, fall eða kyrrstaða

Sé tekið mið af síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir viku, stendur fylgi Pírata og Framsóknarflokksins nánast í stað og það sama má segja um Viðreisn og Bjarta framtíð. Fylgi VG er einnig svipað og í síðustu viku.

Fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins minnkar um u.þ.b. þriðjung frá því fyrir viku og fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem hafði dalað talsvert á milli kannana, hefur nú aukist lítillega frá síðustu könnun.

Hástökkvari vikunnar er óumdeilanlega Samfylkingin. Fylgi flokksins mældist 10,8% í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Í vikunni þar á undan var það 7,5% og í síðustu kosningum fékk flokkurinn 5,7% atkvæða, eða um þriðjung þess fylgis sem flokkurinn mælist nú með.

Munur eftir búsetu og kyni

Áhugavert er að skoða hvernig atkvæði skiptast eftir búsetu fólks. Til dæmis ætla 28% íbúa á höfuðborgarsvæðinu að kjósa VG, 25% sem þar búa ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en aðeins 2% íbúa höfuðborgarsvæðisins ætla að kjósa Framsóknarflokkinn og 4% Miðflokkinn.

Þegar horft er til landsbyggðarinnar horfir dæmið nokkuð öðru vísi við. Þar ætla 12% að kjósa Framsókn og 10% Miðflokkinn. 25% landsbyggðarinnar ætla að kjósa VG og 23% Sjálfstæðisflokk. Jafnhátt hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar ætlar að kjósa Flokk fólksins og fylgi flokkanna á milli landsvæða er sömuleiðis áþekkt hjá Pírötum. Einungis 2% kjósenda á landsbyggðinni ætla að kjósa annaðhvort Viðreisn eða Bjarta framtíð.

Fylgi flokkanna er býsna mismunandi á milli karla og kvenna. 27% karla og 23% kvenna ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi Miðflokksins er þrisvar sinnum meira meðal karla en kvenna og á móti hverjum fimm körlum sem ætla að kjósa Pírata eru tvær konur. Tvöfalt hærra hlutfall karla en kvenna ætlar að kjósa Viðreisn. Dæmið snýst svo við meðal þeirra sem ætla að kjósa VG þar sem hlutfall kvenna er rúmlega tvöfalt á við karla. Fylgi Samfylkingarinnar skiptist nánast jafnt á milli karla og kvenna og það sama má segja um Flokk fólksins og Bjarta framtíð.

Ýmsir möguleikar á stjórn

Verði þetta niðurstöður alþingiskosninganna 28. október verður stjórn Sjálfstæðisflokks og VG eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn, en samtals mælast flokkarnir nú með 35 þingmenn.

VG og Samfylkingin, sem samtals yrðu með 30 þingmenn, gætu til dæmis myndað þriggja flokka stjórn með Framsóknarflokknum, Miðflokknum, Pírötum eða Flokki fólksins.

Könnun Félagsvísindastofnunar náði til 1.000 manna netúrtaks og 1.200 símaúrtaks. Fjöldi svarenda var 1.250; 713 á neti og 537 í síma. Þátttökuhlutfall var 58%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »