Falsaðar undirskriftir til lögreglu

mbl.is/Brynjar Gauti

Við yfirferð meðmælendalista í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður fundust falsaðar undirskriftir hjá tveimur framboðum. Um falsanir í talsverðum mæli var að ræða hjá einum stjórnmálasamtökum í báðum kjördæmunum og drógu þau framboð sitt í kjölfarið til baka. Komið hefur fram að þar var um að ræða Íslensku þjóðfylkinguna.

„Einnig kom í ljós afmarkað tilvik fölsunar hjá öðrum framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi norður sem var þess eðlis að það hafði engin áhrif á gildi framboðslistans. Í dag tóku kjörstjórnir ákvörðun um að senda tilkynningu til lögreglu vegna beggja þessara tilvika,“ segir í fréttatilkynningu en kjörstjórnir kjördæmanna funduðu í dag.

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður, vildi aðspurð ekki gefa upp hvert hitt framboðið er. Einkum á þeim forsendum að það hafi ekki haft áhrif á það að framboðið var tekið gilt þar sem lágmarksfjölda undirskrifta var engu að síður náð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert